Umræður um störf þingsins 25. apríl

Miðvikudaginn 25. apríl 2012, kl. 15:03:07 (8311)


140. löggjafarþing — 88. fundur,  25. apr. 2012.

störf þingsins.

[15:03]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Á fundi efnahags- og viðskiptanefndar í morgun var afgreitt til 2. umr. þingmannamál flutt af fjölmörgum þingmönnum sem lýtur að birtingu upplýsinga um afskriftir í bankakerfinu eftir það efnahagshrun sem varð hér haustið 2008. Góð samstaða tókst í nefndinni með fulltrúum úr öllum flokkum. Aðeins einn þingmaður lagðist gegn afgreiðslu málsins þó að einstakir fyrirvarar hafi verið settir við afgreiðslu þess.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að birtar verði frá 2009 og eftir það upplýsingar um afskriftir sem nema 100 millj. kr. eða meira og var af flutningsmönnum til þess ætlað að auka gagnsæi í uppgjörinu eftir hrun, hafa opnar upplýsingar um það sem gerst hefur í fjármálakerfinu, fyrst og fremst til að eyða óþarfatortryggni um að þar hafi eitthvað misjafnt verið á ferðinni og sömuleiðis til að gæta jafnræðis meðal þeirra sem hefur verið afskrifað hjá. Það hefur verið talsvert um opinbera umfjöllun um þær afskriftir hjá sumum þeirra sem hafa notið þeirra og eðlilegt að það sé einfaldlega með sambærilegum hætti og haft jafnræði gagnvart þeim sem í hlut eiga og hlotið hafa verulegar afskriftir, 100 milljónir eða meira. Það á einfaldlega að birta upplýsingarnar og hafa aðgengilegar almenningi svo menn geti þá innt eftir ástæðum þess í hvert og eitt sinn.

Ég þakka flutningsmönnum fyrir að taka þetta mál upp. Eitt af mikilvægustu verkefnum okkar eftir hrun er að endurreisa traust á fjármálakerfið. Það gerum við mest og best með því að hafa hlutina uppi á borðum og að mikilvægar upplýsingar sem varða verulega fjárhagslega hagsmuni séu almenningi aðgengilegar. Ég þakka nefndinni fyrir gott samstarf og þá tiltölulega breiðu samstöðu fulltrúa úr öllum flokkum (Forseti hringir.) sem tókst um málið.