Utanríkis- og alþjóðamál

Fimmtudaginn 26. apríl 2012, kl. 11:48:50 (8417)


140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[11:48]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Við vitum að það eru pólar innan Evrópusambandsins sem hafa algjörlega mismunandi skoðanir á því hvernig það á að þróast. Fransk-þýski öxullinn hefur yfirleitt haft þau viðhorf að það eigi að dýpka og samþætta Evrópusamrunann eins og hægt er. Við vitum að önnur ríki, t.d. Bretar, hafa verið allt annarrar skoðunar og sú krafa og þau viðhorf hafa komið sterkar fram hjá Bretum núna undir núverandi forsætisráðherra og raunar sérstaklega núna eftir að evruvandinn varð svona stór.

Ég lít svo á að þessi ummæli Schultz, sem er Þjóðverji, spegli þau viðhorf. Ég leit svo á að hann væri þar í reynd að setja upp ákveðið gult spjald og draga fram þær ógnir sem hann taldi fylgja því ef menn gerðu þær kröfur að flytja þau völd frá framkvæmdastjórninni sem hún hefur haft yfir til þjóðríkja eins og til dæmis Breta. Ég hef litið svo á að þetta væri sú rökræða þar sem menn vegast á með vopnum orða. (Gripið fram í: Hún á bara eftir að aukast.)