140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[22:51]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kemur þarna inn á mjög áhugaverðan punkt því að auðvitað getur þessi staða komið upp hér eins og annars staðar. Tillögur stjórnlagaráðs gera ráð fyrir, ef ég skil þær rétt, að komi þessi staða upp sé sama leiðin og í Grikklandi farin, þ.e. að boða til nýrra kosninga. Það hefur örugglega sína kosti og galla að fara þá leið.

Það kann að vera að eitthvert heimildarákvæði þurfi fyrir einhvers konar annarri aðferðafræði — nú ætla ég að leyfa mér að hugsa upphátt, ég er ekki endilega að mæla með því — að skipa til dæmis starfsstjórn, utanþingsstjórn eða eitthvað slíkt til bráðabirgða. Best væri vitanlega að hægt væri að skikka stjórnmálamenn til að ná saman um myndun ríkisstjórnar. Einnig má velta því fyrir sér hvort þá hefð sem okkur skortir á Íslandi, eða við höfum ekki haft, að vera með minnihlutastjórnir, vanti kannski inn í rammann sem við ræðum.

Ég er sammála þingmanni um að það er mjög mikilvægt að fram fari umræða — og ég hefði vitanlega helst viljað að hún hefði farið fram í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd — um það hvernig við getum sett upp einhvers konar varaleið ef þessi aðstaða kemur upp. Í tillögum stjórnlagaráðs er lögð til sú leið að innan 10 vikna verði kosið að nýju ef ekki tekst að mynda stjórn. Ég leyfi mér reyndar að efast um að það hefði svo mikil áhrif á Íslandi, alla vega eins og stjórnmálin eru í dag. Það eru nokkuð skýr skil og nokkuð klár massi sem er á hverjum stað í samfélagi okkar.