Framtíðarskipan fjármálakerfisins

Mánudaginn 21. maí 2012, kl. 17:17:30 (10575)


140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

framtíðarskipan fjármálakerfis.

778. mál
[17:17]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum skýrslu efnahags- og viðskiptaráðherra um framtíðarskipan fjármálakerfisins. Í skýrslunni er fjallað um bankakreppur og sýnir sagan að þær eru algengari en margan hefði grunað. Fram kemur að í gagnagrunni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins séu nefndar 124 kerfislægar bankakreppur á árunum 1970–2007 og sagan hefur sýnt að aukið frjálsræði og minna eftirlit á fjármálamörkuðum leiðir af sér þenslu sem aftur getur leitt af sér hrun.

Yfirleitt skella fjármálakreppur á innan fimm ára frá því að fjármagnsfrelsið er aukið og fimm árin stemma ágætlega við tímann sem leið frá einkavæðingu bankanna 2002–2003 en þeir voru í raun allir fallnir fjórum til fimm árum síðar þó að fall þeirra hafi ekki raungerst fyrr en haustið 2008. Í skýrslunni segir, með leyfi forseta:

„Nýlegar rannsóknir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins benda til þess að hraður útlánavöxtur ásamt öðru, m.a. ört hækkandi eignaverði og fjármagnskostnaði, geti haft forspárgildi um alvarlegt ójafnvægi á fjármálamarkaði.“

Í aðdraganda hruns verðlaunuðu bankamenn sjálfa sig fyrir hraðan útlánavöxt sem grundvallaðist meðal annars á ört hækkandi eignaverði. Þannig kerfi eigum við að baki, kerfi með eðlislæga tilhneigingu til ofþenslu. Kerfi framtíðarinnar á hins vegar að þjóna fólkinu. Hrunið kostaði ríkissjóð Íslands gríðarlega fjármuni eða sem nemur 25% af vergri landsframleiðslu. Stærsti hluti þess er fall Seðlabankans 11%, endurfjármögnun bankakerfisins 12% og endurfjármögnun Íbúðalánasjóðs 2%. Umræður um framtíðarskipan íslenska fjármálakerfisins hér á landi hefur að mestu einskorðast við gjaldmiðilinn. Er stöðugt haldið fram að gjaldmiðlaskipti séu forsenda þess að horfa til framtíðar í þeim efnum. Minna hefur farið fyrir öðrum þáttum, svo sem öflugra regluverki og strangara eftirliti með fjármálamörkuðum, þ.e. minna frjálsræðis. Þó er það vitað að skortur á eftirliti, veikara regluverk og aukið frjálsræði á fjármálamörkuðum var meðal þess sem olli hruninu.

Gjaldmiðlaskipti ein og sér án annarra aðgerða eru gagnslaus og geta jafnvel aukið á efnahagserfiðleika. Framtíðarskipan íslenska fjármálakerfisins þarf fyrst og fremst að miða að því að hafa stjórn á fjármálamarkaðnum í stað þess að hann stjórni sér sjálfur. Fjármálamarkaðurinn þarf að lúta ströngum reglum og miklu eftirliti í stað þess taumlausa frjálsræðis sem hann naut í aðdraganda hrunsins. Allt er þetta sem eitur í beinum þeirra pólitísku afla sem áður áttu hér upp á pallborðið og þó svo að stefna þeirra hafi beðið fullkomið skipbrot bíður hún færis á að komast aftur upp á yfirborðið með tilheyrandi áhættu og afleiðingum. Fjölmörg tæki eru tiltæk til að stemma stigu við ofþenslu fjármálakerfa, svo sem að setja þeim skorður á borð við hámark á hlutfall lána af veðhæfri eign, hámark á hlutfall skulda af tekjum, aukna bindiskyldu banka og hertar kröfur um lausafé og eiginfjárhlutfall svo eitthvað sé nefnt. Stjórnvöld hafa frá hruni þurft að axla ábyrgð á því að herða reglur á fjármálamörkuðum og koma aftur á aðhaldi og virku eftirliti, en án fullnægjandi aðhaldsreglna og eftirlits er, eins og reynslan sýnir, hætta fyrir hendi á kerfislægu hruni.

Framtíðarskipan íslenska fjármálakerfisins þarf að mótast af langtímahagsmunum. Hún þarf að mótast af aga í ríkisfjármálum sem tekur mið af því ef við náum að halda okkur innan þess ramma sem efnahagsstefnan býður okkur að gera. Þannig og aðeins þannig öðlumst við það traust sem okkur er nauðsynlegt að öðlast á alþjóðavettvangi sem er síðan aftur forsenda fyrir því að við getum skapað íslensku fjármálakerfi öruggari framtíðarsýn en verið hefur hingað til.

Ég tel mjög brýnt að sem fyrst verði skilið á milli starfsemi viðskiptabanka annars vegar og starfsemi fjárfestingarbanka hins vegar. Við ætlum að skapa umgjörð um fjármálakerfi sem er ætlað að þjóna fólkinu en ekki því sjálfu. Fjármálamarkaðurinn á að lúta ströngum reglum og aðhaldi svo sagan endurtaki sig ekki. Gleymum því ekki að eftirlit með fjármálakerfinu og mörkuðum var meðal þess sem brást í aðdraganda hrunsins. Þar eins og víðar hefur verið bætt um betur og verður ekki slegið slöku við í þeirri endurskipulagningu sem fram undan er í framtíðarskipan fjármálakerfisins.