Ummæli stækkunarstjóra ESB um framgang viðræðna

Miðvikudaginn 30. maí 2012, kl. 10:36:02 (11473)


140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

ummæli stækkunarstjóra ESB um framgang viðræðna.

[10:36]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Það er örstutt síðan að við áttum langa umræðu um utanríkismál þegar ég flutti skýrslu mína til þingsins. Þá var uppistaða umræðunnar einmitt staðan í aðildarviðræðunum og það er því mjög skammt síðan við fórum mjög vel og ítarlega yfir það. Á þeim tímapunkti fór ég gaumgæfilega yfir stöðu mála, t.d. varðandi fiskveiðikaflann. Ég greindi frá því að verið væri að leggja — kannski ekki lokahöndina á það verk sem við þurfum að vinna áður en við getum lagt fram afstöðu okkar, en það er hins vegar langt komið.

Að því er varðar landbúnaðarkaflann er núna verið að leggja síðustu hönd á hina tímasettu aðgerðaáætlun og er hugsanlegt að hægt verði að opna kaflann í haust. Hv. þingmaður veit hins vegar jafn vel og ég að sú vinna tafðist töluvert og hann veit líka af hverju. En það er sem sagt unnið hörðum höndum að því að geta opnað þessa tvo erfiðu kafla.