Lögmæti breytinga á verðtollum búvara

Mánudaginn 28. nóvember 2011, kl. 18:48:26 (1946)


140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

lögmæti breytinga á verðtollum búvara.

117. mál
[18:48]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Varðandi efnislega spurningu hv. þingmanns sem laut að því hvernig ráðherra hygðist bregðast við áliti umboðsmanns Alþingis um að endurskoða eða fara yfir tollalögin, segir orðrétt í álitinu, með leyfi forseta:

„Umboðsmaður rakti tiltekin ákvæði laga nr. 88/2005 og laga nr. 99/1993 og taldi að ekki yrði annað séð en að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefði með framsali verið fengið vald til að ákvarða hvort sá afsláttur sem veittur væri frá greiðslu á fullum tolli samkvæmt tollalögum miðaðist við verð eða magn þeirrar vöru sem flutt væri til landsins í samræmi við tollkvóta samkvæmt viðaukum III A og B og IV A og B.“

Það liggur sem sagt fyrir ákvörðun um tollana en síðan er ráðherra heimilt að veita afslátt af þeim tollum sem kveðið hefur verið á um í tollalögum.

Í framhaldi af þeirri umræðu ákvað ráðherra að bregðast við áliti umboðsmanns Alþingis um lögmæti breytinga á verðtollum búvara og eftir umfjöllun í ríkisstjórn í ágústmánuði ákvað ég, í samráði við fjármálaráðherra, að fela starfshópi að gera tillögur að breytingum á tilvitnuðum lagaákvæðum með tilliti til athugasemda umboðsmanns og þeim þjóðréttarlegu skuldbindingum sem Ísland hefur undirgengist í þessum efnum. Starfshópinn skipa: Sigurgeir Þorgeirsson, ráðuneytisstjóri í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, Ágúst Geir Ágústsson, skrifstofustjóri í forsætisráðuneyti, Lilja Sturludóttir, lögfræðingur í fjármálaráðuneyti, Bergþór Magnússon, deildarstjóri í utanríkisráðuneyti og Kjartan Gunnarsson, skrifstofustjóri í efnahags- og viðskiptaráðuneyti.

Lagt var fyrir hópinn að skila tillögum eigi síðar en 1. nóvember 2011 en eins og fram kemur hjá formanni starfshópsins hefur hópurinn fundað reglulega og aflað margvíslegra gagna og hefur formaður hópsins upplýst mig um stöðu vinnunnar. Viðfangsefni hópsins hefur meðal annars verið hvort miða skuli við verðtolla eða magntolla við úthlutun tollkvóta samkvæmt samningi við Alþjóðaviðskiptastofnunina, enn fremur að skilgreina nánar hvaða staða þurfi að vera fyrir hendi á innanlandsmarkaði til þess að tollkvótum sé úthlutað samkvæmt viðaukum IV A og B við tollalög en þeim kvótum er beitt í þeim tilgangi að koma í veg fyrir skort á markaði þegar innlend framleiðsla annar ekki eftirspurn. Einnig þurfi að skýra nánar hvernig tollur er ákveðinn við úthlutun tollkvóta og lögfesta hlutlæg skilyrði fyrir þeirri ákvörðun.

Samkvæmt upplýsingum formannsins þurfti að fara fram allmikil vinna og gagnasöfnun en hópurinn hyggst skila tillögum sínum í formi frumvarps til breytinga á umræddum lögum. Eftir því sem mér er tjáð mun sú vinna vera á lokastigi og eins frumvarp þess efnis sem verður fyrst að leggja fyrir ríkisstjórn eins og hv. þingmaður þekkir úr veru sinni í ríkisstjórn. Síðan þarf ríkisstjórn að samþykkja að málið verði lagt fyrir Alþingi. Ég hef lagt áherslu á því verði hraðað eins og kostur er en málið hefur margs konar skírskotun, annars vegar í tollalög og hins vegar í alþjóðasamninga sem við erum aðilar að. Þess vegna er mjög mikilvægt að farið sé vandlega yfir það. Sá hópur sem ég tilgreindi áðan hefur unnið að þessum málum og eins og ég sagði vonast ég til að niðurstaða hans komi mjög fljótlega og gert er ráð fyrir að skila málinu í frumvarpsformi.