Vernd og orkunýting landsvæða

Miðvikudaginn 26. september 2012, kl. 16:05:33 (0)


141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:05]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Af þessu svari ráðherrans má ráða að það er augljóst að það er einfaldlega pólitísk stefna ráðherrans að færa til þessa kosti á grundvelli hugsjóna í pólitík. Þegar það verkefni var sett af stað að búa til rammaáætlun í þessum 2. áfanga sátum við sjálfstæðismenn í ríkisstjórn með Samfylkingunni. Strax þar getur hæstv. ráðherra fundið sjónarmið og áhuga sjálfstæðismanna á náttúruvernd. Við höfum mikinn áhuga á náttúruvernd enda höfum við stutt þetta ferli, en málið er einfaldlega að það þarf að ganga allt til enda og fylgja hinum faglegu forsendum.

Hér er vikið frá þeim og það er miður vegna þess að ég hef heyrt þingmenn allra flokka tala um hversu mikilvægt það sé að reyna að ná sátt um þessi mál, hvar eigi að virkja og hvar eigi að vernda, en hér er hörfað frá þeirri stefnu.

Það er mjög miður fyrir okkur öll sem hér stöndum og höfum miklar tilfinningar til náttúrunnar og ekki síður er það slæmt (Forseti hringir.) fyrir fólkið í landinu sem þarf að horfa upp á að við stjórnmálamenn getum ekki hamið okkur þegar kemur að því (Forseti hringir.) að vera með pólitísk fingraför á þessum málum.