Vernd og orkunýting landsvæða

Miðvikudaginn 26. september 2012, kl. 17:42:50 (0)


141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:42]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ferðaþjónustan hefur sínar skoðanir á þessu máli. Það hafa líka Samorka, Orkuveita Reykjavíkur, Landsvirkjun, Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins ef þú skoðar þeirra umsagnir. Þær eru mjög mismunandi þær umsagnir sem við fáum. Í gegnum þetta var allt farið í þessu víðtæka ferli, einkunnir voru gefnar tilteknum virkjunarkostum og tillit tekið til allra þessara þátta. Það er niðurstaðan úr því sem gefur síðan einhverja meðaleinkunn um það hvar þessir virkjunarkostir raðast. Þá er verið að vega saman hin ólíku sjónarmið.

Ég nefndi það hér áðan að Bitra er sett í verndarflokk en Þverárdalur í biðflokk. Svo stendur maður við borholurnar uppi í Bitru og horfir niður Þverárdalinn, sem er algjörlega óraskað svæði, mjög fallegt svæði. En við hliðina á þér í Bitru eru þrjár borholur, vegur sem búið er að leggja yfir svæðið og háspennulínur sem hægt er að tengja inn á beint yfir. Hvers vegna er hægt að setja þetta í vernd en hitt í bið? Það liggur beinna við að hafa það með öðrum hætti, setja Þverárdalinn í vernd og nýta þá þetta raskaða svæði. Svo fer náttúrlega enginn að virkja í Bitru nema búið verði að ná tökum á loftmengun sem getur haft áhrif á nærliggjandi byggðir. Það er allt annað mál.

Ég tala um að þetta standi í vegi verðmætasköpunar í samfélagi okkar vegna þess að það er hér sem hin augljósa aðkallandi fjárfesting í atvinnulífinu getur orðið. Ferðaþjónustan dregur ekki þann vagn. Atvinnuveganefnd var á Kirkjubæjarklaustri, þeim vinsæla ferðamannastað, í síðustu viku. Þar hefur íbúum fækkað um 25% á tíu árum, ástandið er mjög alvarlegt og sveitarfélagið mjög skuldsett, en þó er mikil ferðaþjónusta á svæðinu. (Forseti hringir.) Það dregur ekki þennan vagn.

Það er alveg ljóst að ef við ætlum að fá þær fjárfestingar í gang sem þarf til að lyfta samfélaginu upp úr (Forseti hringir.) þeim doða sem yfir því er þá gerist það í næstu skrefum í orkufrekum iðnaði. (Forseti hringir.) Þessi þingsályktunartillaga býður ekki upp á það.