132. löggjafarþing — 71. fundur,  21. feb. 2006.

Háskólar.

59. mál
[15:44]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að viðurkenna að mér er ekki alveg kunnugt um það hvernig gjöld eru innheimt af nemendum í þeim löndum sem hv. þingmaður nefnir. En auðvitað trúi ég því. Því var öðruvísi háttað þar sem ég var í námi. Þar voru mjög há skólagjöld. Reyndar varð breyting gjör á meðan á mínu námi stóð þar. Ég var svo heppinn að ég naut stuðnings þannig að bresk stjórnvöld greiddu fyrir menntun mína. Ég var sem sagt hér á fyrstu árum mínum af ýmsum skoðanabræðrum hv. þingmanns kallaður „One of Maggie´s boys“ frá því að Margrét Thatcher greiddi fyrir menntun mína í Bretlandi í fjögur ár.

Vandamálið sem hv. þingmaður nefnir er raunverulegt. Það er þetta: Margir sækja sér menntun í greinum sem eru ólíklegar til þess að skila viðkomandi það miklum tekjum að þeir geti staðið undir miklum greiðslum af háum lánum. Ég hef þess vegna oft og tíðum reifað hugmynd — hana er reyndar að finna með öðrum hætti í frumvarpi sem hv. þingmenn Björgvin G. Sigurðsson og aðrir úr Samfylkingunni hafa lagt fram — þar sem gert er ráð fyrir að ákveðnar greinar séu styrkhæfari en aðrar, þ.e. að þeir sem ekki leggja í nám sem er líklegt til mjög mikilla tekna að því loknu eigi kost á slíkum stuðningi. Það er mjög nauðsynlegt bara fyrir grósku mannlífsins og fjölbreytni mannlífsins að mönnum sé líka haldið til verka í þeim greinum.

Ég nefni t.d. íslenskudeild við Háskóla Íslands sem hefur á síðasta einum og hálfa áratug drabbast niður vegna áhugaleysis stjórnvalda. Kennarar voru þar 15. Þeir eru 11 núna. Ég hef t.d. sagt að til þess að laða menn að þeim eldi menningararfleifðarinnar þá eigi að styrkja þá. Þetta er ekkert annað en það sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson mundi kalla lögmál framboðs og eftirspurnar.