137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

lokafjárlög 2007.

57. mál
[13:32]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til fjáraukalaga, sem er þá mælt fyrir hér í annað sinn a.m.k., eða lokafjárlög er það víst fyrir árið 2007.

Frumvarp þetta er lagt fram til breytinga á fjárheimildum vegna frávika í mörkuðum tekjum ríkisins og stofnana frá áætlun fjárlaga og til að gera tillögur um ráðstafanir á stöðu fjárheimilda í árslok, og það er annaðhvort gert með niðurfellingu eða flutningi til næsta árs. Þá er frumvarpið einnig til staðfestingar á niðurstöðum í ríkisreikningi ársins 2007. Frumvarpið var lagt fram á síðasta þingi, þ.e. fyrr í vor eða síðla vetrar, en vegna anna í þinginu náðist ekki að afgreiða málið þó ég hyggi að það hafi verið fullunnið að mestu leyti af hálfu fjárlaganefndar, en frumvarpið er nú endurflutt óbreytt.

Uppbygging frumvarpsins er með sama hætti og verið hefur undanfarin ár, uppgjör og ráðstöfun á fjárheimildastöðum í árslok byggja á sömu vinnureglum og áður.

Í fylgiskjali 2 er birt yfirlit yfir talnagrundvöll frumvarpsins. Heildarfjárheimildir ársins 2007 námu 409,9 milljörðum kr., útgjöld samkvæmt ríkisreikningi voru 397,5 milljarðar kr. og fjárheimildastaða í árslok 2007 var því jákvæð um 12,4 milljarða kr. Í frumvarpinu er að vanda lagt til að stöður fjárheimilda í árslok verði annaðhvort felldar niður, eins og fram kemur í 2. gr. frumvarpsins, eða fluttar til næsta árs, eins og fram kemur í fylgiskjali 1 með frumvarpinu.

Í 1. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á fjárheimildum stofnana og verkefna vegna frávika markaðra ríkistekna frá áætlun fjárlaga og fjáraukalaga, samanber nánari skiptingu í sundurliðun 1. Alls er lagt til að fjárheimildir hækki um 2.117,7 millj. kr. samkvæmt þessu uppgjöri á fjármögnun verkefna með mörkuðum ríkistekjum. Nánari skipting niður á fjárlagaliði og viðfangsefni er sýnd í sundurliðun 1. Hér er leitað eftir heimild Alþingis fyrir því að ráðstafa mörkuðum skatttekjum og öðrum ríkistekjum stofnana í samræmi við það hverjar tekjurnar urðu samkvæmt uppgjöri ríkisreiknings eða hver metin fjárþörf reyndist vera við skil ríkissjóðs á mörkuðum tekjum til viðkomandi stofnana.

Almennt gildir að útgjaldaheimildir fjárlagaliða hækka hafi lögboðnar ríkistekjur til fjármögnunar á útgjöldum verið meiri en áætlað var í fjárlögum, en lækka hafi tekjurnar verið minni. Þetta er þó ekki algilt því að ekki eru lagðar til breytingar á fjárheimildum stofnana í þeim tilvikum þegar ekki er beint samband milli útgjaldaþarfar og fjármögnunar þannig að breytingar í tekjum hafi samsvarandi bein áhrif á kostnað.

Í 2. gr. frumvarpsins eru lagðar til niðurfellingar á fjárheimildastöðum í árslok. Er þar bæði um að ræða ónotaðar fjárveitingar og gjöld umfram heimildir. Nánari skipting niður á fjárlagaliði og viðfangsefni er sýnd í sundurliðun 2. Gert er ráð fyrir að á rekstrargrunni falli niður samtals 7.054,7 millj. kr. umfram gjöld en að á greiðslugrunni falli niður 6.770,3 millj. kr. sem eru afgangsheimildir. Þessi mikli munur sem er á milli rekstrargrunns og greiðslugrunns hvað hinar niðurfelldu stöður varðar stafar að stærstum hluta af því að niður falla háar stöður sem ekki hafa áhrif á útgreiðslur, svo sem stöður á liðnum Lífeyrisskuldbindingar og Afskriftir skattkrafna.

Ráðstafanir á fjárheimildastöðum í árslok byggja á viðmiðunarreglum þar sem einkum er litið til þess hvort útgjöld eru bundin, t.d. af lögum eða samningum, eða frekar á ábyrgð tiltekins stjórnsýsluaðila sem viðhaft geti virka útgjaldastýringu. Í sumum tilvikum kann að vera álitamál hvort fella beri niður stöður einstakra fjárlagaliða eða flytja til næsta árs og við gerð sérhvers lokafjárlagafrumvarps þarf að leggja mat á þessi tilvik.

Í samræmi við ákvæði 37. og 45. gr. laga um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997, er í fylgiskjali 1 með frumvarpinu birt yfirlit yfir stöðu fjárheimilda í árslok 2007 sem færast yfir til ársins 2008. Gert er ráð fyrir að í heildina tekið flytjist tæplega 19,5 milljarðar kr. jákvæð fjárheimildastaða yfir til ársins 2008. Sú fjárhæð samsvarar 4,5% af fjárveitingum fjárlaga 2008.

Ég hef, virðulegur forseti, farið yfir helstu þætti frumvarpsins. Með því eru lagðar fyrir Alþingi niðurstöður úr rekstri ríkissjóðs gagnvart fjárheimildum á árinu 2007 og vísast í því sambandi til greinargerða í fjáraukalögum og ríkisreikningi og um meginatriði í framvindu ríkisfjármálanna og helstu frávik í tekjum og gjöldum. Ég tel því ekki ástæðu til að fara yfir einstök atriði frumvarpsins frekar og legg til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. fjárlaganefndar þingsins, sem á að vera orðin frumvarpinu nokkuð vel kunn og á nú í vændum að fá það til umfjöllunar í annað sinn á þessu ári.