139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[21:08]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Það er furðulegt að til þess skuli vera ætlast að við klárum 3. umr. um þetta gríðarstóra mál í kvöld og í nótt. Eitt er að málið skuli hafa verið rifið úr fjárlaganefnd án þess að komin væru svör við mjög stórum spurningum en annað að ætla sér að skilja við málið með þessum hætti. En kannski er það bara lýsandi vegna þess að þetta mál hefur allt frá upphafi sýnt og sannað alla helstu galla íslenskra stjórnmála og raunar viðskiptalífs líka fyrir hrunið.

Það má eiginlega segja að eftir efnahagshrunið höfum við fengið próf, fengið tækifæri til að sýna hvort menn hefðu lært eitthvað af reynslunni, og það var þetta Icesave-mál en því miður stefnir allt í að menn séu að falla gjörsamlega á öllum liðum þessa prófs.

Það byrjaði með því að ríkisstjórnin ætlaði að fallast á kröfur Breta og Hollendinga, Icesave-samningana sem svo eru kallaðir núna, óséða. Það átti hreinlega að keyra málið í gegn án þess að þingmenn væru búnir að lesa það. Þingmenn stjórnarliðsins voru búnir að samþykkja þetta fyrir sitt leyti án þess að hafa lesið samningana. Þarna sáum við strax í hvað stefndi, hvers lags vinnubrögð menn sætta sig enn þá við að viðhafa. En þetta var bara forsmekkurinn af því sem koma skyldi. Aftur og aftur og aftur rákum við okkur á það í þessu máli undanfarin tvö ár að það mátti ekki einu sinni kanna grundvallaratriðin, það mátti ekki gefa sér tíma í að fara yfir eða fá mat frá þar til bærum aðilum á stærstu spurningunum í þessu máli. Það þurfti að knýja allt slíkt í gegn með verulegu pólitísku átaki.

Það má nefna bara til að nefna eitt dæmi að ekki stóð til að fá lögfræðiálit frá breskri lögmannastofu. Það stóð hreinlega ekki til að fá álit frá breskum lögmönnum á áhrifum þessa samnings, fyrsta Icesave-samningsins, þó að um hann ættu að gilda bresk lög.

Í þessu máli höfum við líka orðið vitni að verstu gerð flokksræðis þar sem þingmenn stjórnarliðsins ýmist fylgdu bara í hóp án þess að kanna hvað þeir væru raunverulega að samþykkja og tala fyrir eða voru í sumum tilvikum barðir til hlýðni eða a.m.k. gerðar tilraunir til slíks og það allverulegar tilraunir með miklum látum, eins og menn fengu að fylgjast með undanfarin tvö ár.

Annað dæmi um hvernig menn féllu á prófi í þessu máli er eitt skýrasta dæmið um það að stjórnmálamenn velta vandanum yfir á framtíðina. Í stað þess að taka á honum í samtímanum er vandanum velt yfir á framtíðina í þeirri von að seinni tíma fólk leysi úr honum.

Svo er umfjöllun um þetta mál alveg kapítuli út af fyrir sig. Gagnrýnt hefur verið hvernig fjölmiðlaumfjöllun var háttað í aðdraganda efnahagshrunsins og það hafi vantað mjög upp á eftirlit eða réttara sagt aðhald frá fjölmiðlum. Í þessu máli gerðu margir fjölmiðlar sig seka um það, leyfi ég mér að segja, að reka blindan áróður fyrir afstöðu ríkisstjórnarinnar, þeirri afstöðu að það ætti að samþykkja Icesave 1, Icesave 2 og öll möguleg tilboð í þessu máli án þess í fyrsta lagi að vilja yfir höfuð hlusta á ábendingar úr öðrum áttum. Ég þekki þetta t.d. sjálfur af eigin reynslu frá byrjun við það að reyna að benda á áhættuna sem menn stóðu frammi fyrir áður en búið var að gera Icesave-samninginn, þegar reynt var að koma í veg fyrir að slíkur samningur yrði gerður. Það var víða mjög lítill áhugi á því á fjölmiðlum að heyra slík rök en hins vegar mikill áhugi á því að keyra málið í gegn. Þar bættust svo við nokkrir valinkunnir álitsgjafar sem voru óþreytandi við að hamra á því að það bæri að samþykkja þetta og það strax.

Þarna voru menn að endurtaka mistök þó að það væri í öðru máli en þegar verið var að tala máli útrásarinnar út í eitt, en það sem mér fannst sérstaklega óásættanlegt við þetta var að þegar komið hafði í ljós hversu rangt menn höfðu haft fyrir sér um fyrri Icesave-samningana skyldu menn samt halda áfram, sömu álitsgjafarnir með sömu rökin og var löngu búið að sannast að engin innstæða væri fyrir kunnu ekki að skammast sín, þeir héldu áfram að hjakka í sama farinu. Þetta olli mér og veldur mér enn töluverðum áhyggjum, ekki bara út af þessu máli heldur vegna þess hvað þetta segir okkur um hættuna sem við stöndum frammi fyrir, samfélagið, á því að gerð séu stórkostleg mistök og menn læri ekkert af reynslunni.

Í þessu sannaðist líka að menn hafa ákaflega lítið lært, margir hverjir, af stærstu mistökunum sem voru gerð efnahagslega í aðdraganda hrunsins. Hver man ekki eftir þeim rökstuðningi sem við fengum að heyra aftur og aftur og aftur frá bönkunum og útrásarfyrirtækjum þegar bent var á að viðskipti þeirra væru kannski ekki sjálfbær, svarið sem kom alltaf var að veltan væri að aukast svo mikið. Það var alltaf meiri og meiri velta sem átti að standa undir meiri og meiri skuldum. Þetta voru nákvæmlega og hafa verið fram á þennan dag meginrök ríkisstjórnarinnar fyrir því að skuldirnar séu ekki aðalatriðið hvort við tökum á okkur svo og svo mörg hundruð milljarða kröfur vegna þess að ef við gerum það náum við upp veltunni, þá náum við upp hagvextinum, með því að bæta á okkur þessum kröfum náum við upp hagvextinum. Þetta eru nákvæmlega sömu rök sem ríkisstjórnin hefur beitt í Icesave-málinu og útrásarbankarnir beittu fram á síðasta dag. Þar hafa menn ekki heldur lært nokkurn skapaðan hlut af reynslunni, því miður.

En það sem mér finnst þó líklega verst við þetta mál og þessa tveggja ára sögu Icesave-málsins er að það sýnir okkur að stjórnmál eru rekin hér ekki fyrst og fremst út frá rökum heldur einhverju allt öðru, út frá frösum. Við munum eftir „Norður-Kóreu vestursins“ og „Kúbu norðursins“ og öllum frösunum um að við þyrftum að klára þetta til að koma atvinnulífinu af stað án þess að frekari rök væru færð fyrir því, að við þyrftum að klára þetta til að skapa betra lánstraust, eins þversagnakennt og það nú var. Með þessum hætti hafa stjórnmálin verið rekin, ekki út frá staðreyndum mála vegna þess að ef við skoðum staðreyndir þessa máls eru þær bara nokkuð augljósar.

Tökum sem dæmi þær fullyrðingar sem ég nefndi áðan, að það þyrfti að klára Icesave 1, Icesave 2 og Icesave 3 vegna þess að við þyrftum að styrkja gengi krónunnar eða við þyrftum að klára þetta allt saman til að einhver mundi vilja lána okkur pening, til að Ísland fengi lánstraust á ný.

Ýmsir hlutir eru óljósir í hagfræðinni og hagvísindunum. Sumir hlutir eru þó bara eins og plús eða mínus, eins og það að 2+2 eru 4. Eitt af því er það að ef land bætir á sig skuldum í erlendri mynt veikir það gengi gjaldmiðilsins. Það er bara óhjákvæmileg afleiðing. Hitt er, og þetta ætti að vera enn þá augljósara, að ef menn bæta á sig skuldum og það verulegum skuldum eru þeir ekki lengur jafngóðir lántakendur og þeir voru fyrir. Aukin skuldasöfnun gerir menn að ótraustari, verri lántakendum en minni skuldasöfnun. Þetta er svo augljóst að það á ekki að þurfa að taka þetta fram en samt höfum við í tvö ár verið að ræða málið á þessum nótum og síðast í kvöld. Við höfum heyrt nokkrar svona ræður í dag að við þurfum að ganga að þessum kröfum til að efla lánstraust Íslands svo Íslendingar geti tekið meiri lán. Þetta er náttúrlega gersamlega órökrétt en í tvö ár hafa menn komist upp með það eða leyft sér að halda þessu fram. Svo halda þeir því fram að það eigi að ganga frá þessu núna, þessum nýja Icesave-samningi, Icesave 3, vegna þess að það sé hin ábyrga afstaða. Þetta fáum við oft að heyra núna, að þetta sé spurning um að taka ábyrga afstöðu. Stjórnmálamenn sem tala þannig eru svolítið að setja sig á þann hest að almenningur hafi ekki alveg nógu mikið vit á hlutunum en þeir séu þess megnugir að fara gegn almenningsálitinu til að geta tekið ábyrga afstöðu vegna þess að almenningur, sem mundi kannski ekki vilja samþykkja Icesave, gerir sér ekki nógu vel grein fyrir því hver hin ábyrga afstaða er og því ætli menn að taka þetta á sig.

En hver er hin ábyrga afstaða í þessu máli? Ábyrga afstaðan í þessu máli eins og alltaf er sú að gera það sem hæfir tilefninu. Ef maður fær sýkingu í fót, drep í fótinn, geta menn neyðst til að taka fótinn af. Þá geta einhverjir stjórnmálamenn komið og sagt, í formi læknis í þessu tilviki: Já, en eigum við ekki að fara hina ábyrgu leið og sættast á að taka bara tána? Það skilar engum árangri, það breytir engu. Við getum líka snúið dæminu við og sagt að maður sé með sýkingu í fæti og það líti allt út fyrir að hann muni læknast vegna þess að lyfin séu farin að virka, og þá komi hinn ábyrgi læknir og segi: Já, en eigum við ekki að taka hina ábyrgu afstöðu þó að hún sé erfið og taka fótinn af svona til öryggis? Þannig hefur umræðan svolítið verið að undanförnu, sérstaklega hjá nýjustu liðsmönnum ríkisstjórnarinnar í þessu máli, vinum okkar hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, sem eðlilega hafa átt svolítið erfitt í málinu því að flestir þeirra vita, held ég, að það er ekkert vit í því að samþykkja þetta mál. En það er þá gert út frá því að þeir séu að taka svo ábyrga afstöðu. Ábyrga afstöðu sem felist í því að samþykkja samninga sem eru á engan hátt lögvarðir og fela í sér mjög óljósar skuldbindingar en þó a.m.k. 26 milljarða við síðustu áramót og geta numið tugum eða hundruðum milljarða eftir því hvernig ýmsir hlutir sveiflast og munu a.m.k. gera íslenska ríkið að áhættufjárfesti. Fjármálaráðherra hvers tíma þarf því að fara að líta á hvernig horfur eru á markaði þegar hann er að undirbúa fjárlög og meta hvort hann eigi að loka sjúkrastofnunum eða draga saman í lögreglunni og þá getur hann kíkt í Financial Times og séð hvernig gengur með Iceland-verslanakeðjuna eða á Bloomberg og athugað með Hamleys og hvaða verð menn telja sig fá fyrir það.

Svo hefur verið nefnt í umræðunni nokkrum sinnum að Bretar og Hollendingar hafa þegar valdið Íslendingum alveg gífurlegu tjóni og það er ekki tekið með í reikninginn hér, það tjón sem varð vegna beitingar hryðjuverkalaga þegar ráðherrar þess lands, Bretlands, lýstu Ísland gjaldþrota, ætluðu að frysta allar íslenskar eigur óháð því hvort þær tilheyrðu bönkunum. Tjónið af þessu var alveg óskaplegt. En þá segja menn: Jú, þetta er nú svona, Bretar ollu okkur vissulega miklu tjóni en tjónið er ekki eins mikið og það hefði orðið ef við hefðum samþykkt Icesave 1 eða 2 og af því að munurinn er svo mikill skulum við bara samþykkja þetta. En þá stendur eftir spurningin: Hvað ef þetta hefði verið fyrsta tilboð? Hvað ef þetta hefði verið upprunalegi samningurinn? Hefðu menn þá fallist á hann? Samkvæmt þessum samningi, þessu tilboði, er gert ráð fyrir að Bretar og Hollendingar fái allt sitt, allar kröfur sínar uppfylltar, þeir fá 20 þúsund evrur á hvern reikning, þeir fá allan fjármögnunarkostnaðinn. Takið eftir því að það eru ekki sömu vextir til Breta og Hollendinga. Af hverju er það? Það er vegna þess að fjármögnunarkostnaður landanna var dálítið ójafn. Það er því verið að tryggja mönnum að þeir fái allt sitt til baka með vaxtakostnaði.

Þá spyr maður: Hver er þá áhættan sem eftir er af málaferlum, ef til þeirra kæmi? Ég er sammála þeim sem hafa bent á að það er mjög ólíklegt að málið færi fyrir alvörudómstóla jafnvel þó að það væri fellt hér vegna þess að hvorug niðurstaðan hentar Bretum og Hollendingum. Það hentar þeim augljóslega ekki að tapa en það hentar þeim ekkert sérstaklega vel að vinna heldur. Þá er verið að staðfesta að það hafi verið ríkisábyrgð á öllum innstæðum í evrópskum bönkum. Hvernig fer þá fyrir spænska ríkinu sem allt í einu er orðið ábyrgt fyrir öllum stóru spænsku bönkunum sem eru í vandræðum vegna fasteignabólunnar þar í landi? Dómínókubbarnir gætu væntanlega haldið áfram að rúlla. Áhættan af dómsmáli er því miklu meiri fyrir Breta og Hollendinga en fyrir Íslendinga.

Jæja, hvað ef það yrði nú samt dómsmál og það yrði slík niðurstaða að hún væri í rauninni bara algerlega órökrétt? Það ætti að refsa Íslendingum, jafnvel þó að það leiddi til tjóns fyrir Evrópulöndin ætli menn samt að refsa Íslendingum með því að dæma þá til að greiða eitthvað miklu meira, þó að ég hafi ekki fengið að heyra almennileg rök fyrir því hvernig það eigi að vera hægt, en segjum sem svo að sú væri niðurstaðan, að greiða miklu meira en þessi samningur gerir ráð fyrir, hver væri niðurstaðan þá?

Nú komum við að stóra atriðinu í þessu máli sem ég efast um að nokkur fulltrúi þeirra sem vilja samþykkja þennan samning geti svarað, vegna þess að ef allt færi á versta hugsanlega veg væri niðurstaðan engu að síður miklu betri en niðurstaðan hefði orðið af Icesave-samningi 1 eða 2 og þá komu stjórnarliðar allir upp og sögðu: Við verðum að samþykkja þessa niðurstöðu. Nú leyfa þeir sér hins vegar að koma upp og segja: Það er áhætta að fara í dómsmál vegna þess að niðurstaðan getur orðið miklu verri. (Forseti hringir.) Versta niðurstaðan hugsanlega í dómsmáli er betri en það sem þeir töluðu fyrir sjálfir í Icesave 1 og 2.