140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

virðisaukaskattur.

666. mál
[15:25]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti á þskj. 1572 með breytingartillögum um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

Megintilgangur þessa frumvarps er tvíþættur, annars vegar að sveitarfélög og stofnanir eða félög sem eru alfarið í eigu sveitarfélaga á sviði brunavarna, brunamála og mengunarvarna fái heimild til fullrar endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna innflutnings eða kaupa á tilgreindum ökutækjum og tækjabúnaði sem notaður er vegna slíkra starfa. Þær breytingar sem felast í frumvarpinu má rekja til samkomulags ríkis og sveitarfélaga frá 5. október 2011 þar sem gert var samkomulag um að breyta uppgjöri á endurgreiðslu virðisaukaskatts frá því sem verið hafði. Fyrir nefndinni komu ekki athugasemdir við þennan þátt málsins og gerir nefndin ekki breytingartillögur við þann þátt. Hinn megintilgangur frumvarpsins snýr að heimild til að fella niður virðisaukaskatt að greindum skilyrðum við innflutning eða skattskylda sölu nýrra rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbifreiða eins og það heitir. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að heimildin verði tímabundin og gildi til loka árs 2013 og markmið þessarar heimildar er að flýta og efla orkuskipti í samgöngum.

Eins og frumvarpið var lagt fram var reiknað með að niðurfelling skattsins skyldi vera mismunandi eftir því hvort um tollafgreiðslu eða skattskylda sölu væri að ræða. Samfara gildistöku var gert ráð fyrir að ákvæði til bráðabirgða um vetnisniðurfellingu virðisaukaskatts af vetnisbifreiðum í rannsóknarskyni verði fellt niður. Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að flestir umsagnaraðilar voru jákvæðir í garð frumvarpsins og sammála því meginmarkmiði að styðja við þróun umhverfisvænna farartækja en fulltrúar ríkisskattstjóra og tollstjóra voru ekki sammála um hvort skynsamlegast væri að byggja aðferð við niðurfellingu virðisaukaskatts við tollafgreiðslu á lækkun skattstofnsins, þ.e. tollverðsins eins og gert var ráð fyrir í 10. gr. frumvarpsins. Tollstjóri gagnrýndi þessa aðferð og taldi að lækkun tollverðs við slíkar kringumstæður félli almennt illa að tollkerfum embættisins.

Eftir yfirferð með tollstjóraembættinu og ríkisskattstjóra leggur nefndin til breytingu á framkvæmd heimildarinnar. Þar er lagt til að miðað verði við lækkun álagðs virðisaukaskatts í stað lækkaðs tollverðs. Breytingartillagan felur í sér að tollstjóra verði heimilt við tollafgreiðslu að fella niður virðisaukaskatt á rafmagns- eða vetnisbifreið að hámarki 1.530 þús. kr. og tengiltvinnbíl að hámarki 1.020 þús. kr. Það kom fram að ríkisskattstjóri gerir ekki athugasemd við þessa breytingu.

Jafnframt leggur nefndin til þá breytingu að niðurfelling virðisaukaskattsins taki einnig til innflutnings og fyrstu sölu notaðrar rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbifreiðar með því skilyrði að ökutæki sé þriggja ára eða yngra á innflutningsdegi og söludegi miðað við fyrstu skráningu. Þessa breytingartillögu er að finna með nefndarálitinu og er 1. liður breytingartillögunnar.

Frú forseti. Nefndin bendir á að enda þótt orðalag 10. gr. frumvarpsins gefi við fyrstu sýn tilefni til að ætla að um heimildarákvæði sé að ræða verði með hliðsjón af 40. og 77. gr. stjórnarskrár og þeim dæmum sem rakin eru í athugasemdum við frumvarpsgreinina að ganga út frá því að beiting hennar ráðist ekki af frjálsu mati skattyfirvalda heldur af hlutlægum skilyrðum, þ.e. verðmæti og eiginleikum viðkomandi ökutækja. Þá telur nefndin að stjórnarskrárákvæðin reisi því skorður að ráðherra breyti inntaki eða eðli undanþágunnar með einföldum reglugerðarbreytingum eins og virðist mega ráða af orðalagi 1. töluliðar 4. efnismgr. 10. gr. frumvarpsins.

Auk þeirrar breytingartillögu sem ég hef hér rakið gerir nefndin þá breytingartillögu að höfðu samráði við fjármálaráðuneytið að gildistími heimildarákvæðis sem heimilar endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna kaupa eða leigu hópferðabifreiða og almenningsvagna sem hafa leyfi til fólksflutninga í atvinnuskyni verði framlengdur um eitt ár en að óbreyttu fellur þetta heimildarákvæði úr gildi um næstu áramót.

Auk þeirrar sem hér stendur rita undir þetta nefndarálit hv. þingmenn Helgi Hjörvar, Magnús Orri Schram, Björn Valur Gíslason og Jónína Rós Guðmundsdóttir, auk þeirra með fyrirvara hv. þingmenn Birkir Jón Jónsson, Lilja Mósesdóttir, Tryggvi Þór Herbertsson og Birgir Ármannsson. Tillaga nefndarinnar er að frumvarpið verði samþykkt svo breytt.