140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

virðisaukaskattur.

666. mál
[15:54]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður er svo rökfastur að ég er alvarlega farinn að íhuga stuðning við þetta ágæta mál um bleiurnar. Það sem kannski vantar á er það sem stendur í frumvarpinu um bílana og reyndar í hinni breytingartillögunni, um varmadælur, að þar er gert ráð fyrir ákveðnum tíma sem ég tel skynsamlegt með skattbreytingar af þessu tagi, þ.e. að þær markist við tíma. Auðvitað er meiningin þá sú að hér sé verið að hvetja til breytingar á neyslumunstri í hag umhverfinu. Það er það fyrst og fremst sem við erum að tala um og að auki nýtist það barnafjölskyldum þótt ég telji slíka undanþágu reyndar skammgóðan vermi fyrir barnafólkið en þá erum við að tala um ákveðinn tíma í því. Þá getum við ekki fest það niður í eitt skipti fyrir öll og ég held að það sé það sem á vantar.

Ég tek eftir að hv. þingmaður svaraði ekki þessu um skrautlausu írsku kertin. Hvað varðar hitt málið ganga mjög margar af þeim undanþáguhugmyndum sem koma fram í virðisaukaskattskerfinu út á það að ákveðin vara sé góð og önnur vara ekki eins góð. Þess vegna eigi góða varan að njóta þess í virðisaukaskatti að vera í lægra þrepinu. Þetta er ágæt og fögur hugsun hjá þeim sem hana hugsa. Það hef ég svo sem gert líka en hún endar hvergi nema í því að almenna virðisaukaskattsprósentan verður þeim mun hærri. Það er rétt hjá hv. þingmanni að hér erum við með sennilega hæsta virðisaukaskattsþrep í heimi og eitt af þeim verkefnum sem fram undan eru á næstu tveimur áratugum í skattamálum er auðvitað að breyta því og lækka virðisaukaskattinn. Það gerum við ekki með því að auka á undanþágur.