141. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2012.

lokafjárlög 2011.

271. mál
[15:49]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég vona svo sannarlega að okkur takist að stöðva þá skuldasöfnun. En ég ítreka þá skoðun mína í ljósi þess sem ég sagði í ræðu minni að ég hef fulla ástæðu til að óttast það eða vera með beyg í brjósti gagnvart því að við séum langan veg frá því að ná þeim tökum á fjármálum ríkisins sem ég held nú raunar innst inni að flestir óski eftir þótt maður sjái þess ekki nægilega vel stað í meðferð núverandi ríkisstjórnar á ríkisfjármálum, því miður.

Það er alveg hárrétt að vandamálið var gríðarlega mikið vexti. Þá vil ég minna hæstv. ráðherra á að stór hluti af þeim halla sem varð á árunum 2008–2009 stafaði af einskiptisframlagi inn í Seðlabanka Íslands. Það er í sjálfu sér ekkert kraftaverk að þurfa ekki að framlengja það árlega, slíkt einskiptisframlag.

Ég vil líka minna hæstv. ráðherra á að það liggur fyrir að þessum þætti mála er ekki lokið. Það er til dæmis ekki króna inni í fjáraukalagafrumvarpinu að því sem lýtur að úrbótum eða endurgerð á fjárhagslegri stöðu Íbúðalánasjóðs. Þar hefur maður heyrt af umræðum, m.a. í fjárlaganefnd, fjárhæðir allt að 16 milljörðum kr. Það má spyrja: Hvernig ætla menn að fara í gegnum það? Á að taka það inn í fjáraukalög ársins 2012 við 2. umr.? Eða ætla menn að fara enn og aftur þá sömu leið að geyma sér að taka á þeim vanda og birta hann almenningi þar til við fáum ríkisreikning fyrir árið 2012 og birta það einhvern tímann upp úr miðju ári á árinu 2013?

Ég vænti þess að hæstv. ráðherra muni ekki vinna með þeim hætti og býst því þar af leiðandi við að á þessum málum verði tekið við 2. umr. fjáraukalagagerðarinnar.