141. löggjafarþing — 41. fundur,  23. nóv. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:58]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er afar óheppilegt að þau gögn um Hólmsárvirkjun sem um ræðir skuli ekki hafa komið fram á réttum tíma og hafi misfarist með einhverjum hætti. Mannleg mistök voru þau kölluð af formanni verkefnisstjórnarinnar og lítið við þeim að gera. Ég tel að það sé einmitt lógík í því að láta gögnin bíða. Þau verður auðvitað að meta með einhverjum hætti. Þau segja ekkert í sjálfu sér. Það verður að bera þau saman við önnur gögn, staðreyndir máls og aðrar forsendur. Ég tel ekki að það sé ráðherranna eða Alþingis að meta gögnin heldur sé það aðeins gert á einum stað, í vinnu faghópanna og verkefnisstjórnarinnar. Því miður.

Ég verð að segja að um Hólmsárvirkjun eru ýmsar skoðanir. Já, við vitum að sveitarfélagið er aðkreppt og sér þarna einhverja lausn á sínum vanda. Við vitum að aðrir telja það skammsýni hjá sveitarfélaginu og virkjunarsérfræðingum. (Forseti hringir.) Ég held að það þurfi að fara í frekari athugun og minni á það (Forseti hringir.) sem sagt var áðan að undirbúningstími virkjana er langur.