142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[19:30]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hafði ætlað að láta mér nægja að tala í andsvörum við framsöguræðu hæstv. fjármálaráðherra í dag en þegar mér heyrist á sumum þeim sem hafa tekið til máls að það frumvarp sem liggur fyrir sé eitthvert smámál og það sé undarlegt að fólk ætli að ræða það eitthvað og það sé hinn mesti óþarfi að bera saman skattlagningu á gistingu hér og í öðrum löndum, það sé bara verið að afnema einhvern skatt sem aldrei hefur tekið gildi, hvaða vesen er þetta eiginlega — þegar ég varð vör við þennan anda hér áðan hugsaði ég að ég ætlaði að reyna að koma því aðeins betur til skila sem mér finnst skipta máli í sambandi við þessa breytingu.

Sumir eru þeirrar skoðunar að skattar séu almennt ill nauðsyn, ég er ekki þeirrar skoðunar. Ég fylli hóp þeirra sem hafa talað hér í dag sem vilja samfélagsþjónustu sem er opin fyrir alla, opinbera heilbrigðisþjónustu, opinbert menntakerfi, gott velferðarkerfi. Ég fylli þann hóp og þess vegna tel ég skatta ekki illa nauðsyn en til þess að geta haldið uppi þessari samfélagsþjónustu þarf að afla tekna til hennar og það er gert með sköttum.

Skattar eru ekki bara tekjuöflunartæki heldur geta þeir líka verið hagstjórnartæki og með því að beita þeim á mismunandi hátt getur ríkisvaldið reynt að hvetja til einhverra verka eða draga úr öðrum. Við höfum til dæmis há gjöld á tóbaki til að draga úr því að fólk reyki of mikið eða reyki yfirleitt. Sykurskattur, sem svo var kallaður, var hækkaður í fyrra. Margir voru mjög á móti því. Fyrir utan það að vera tekjuöflunartæki er honum líka ætlað að draga úr notkun á sykruðum vörum en það er eitt af okkar aðalheilbrigðismálum núna og líklega orðið miklu stærra en t.d. tóbaksreykingar, þ.e. offita, fólk er margt hvert allt of þungt. Þetta er mikið heilsufarslegt áhyggjuefni á Vesturlöndum.

Það er alveg eins með hvernig atvinnugreinar eru skattlagðar. Það er hægt að ívilna þeim eins og hefur verið gert með ferðaþjónustuna þegar hún var að byggjast upp og verið að koma fótum undir hana. Það hefur komið fram í umræðum fyrr í dag að árið 2007 var virðisaukaskattur á gistingu lækkaður úr 14% í 7%. Af hverju? Vegna samkeppnisstöðu því að — það er auðvitað hárrétt sem hér hefur komið fram að við keppum við önnur lönd um það ferðafólk sem kemur hingað til lands — þá var gengið á krónunni svo hátt hér á landi að samkeppnisstaða ferðaþjónustunnar var ekki góð til að keppa við önnur lönd. Þá var skatturinn lækkaður úr 14% niður í 7%.

Nú kemur tvennt til með þann skatt sem nú er til umræðu. Annars vegar þurfum við að afla með honum tekna, hins vegar er alveg ljóst hvað staða ríkissjóðs er slæm og hefur það margoft verið sagt hér og meira að segja hæstv. ríkisstjórn vill gera mjög mikið úr því. Ég sagði það fyrr í dag að enginn gæti leynt stöðu ríkissjóðs, það eru allt saman opinberar tölur og á ekkert að koma á óvart í þeim efnum. En það er alveg ljóst að ef fallið verður frá því að taka skatt sem á að gefa 500 milljónir á þessu ári og 1,5 milljarða á ári í fjögur ár í viðbót og til framtíðar, ef lagt er til að helminga þann skatt þá hlýtur það að auka við þann vanda sem hæstv. ríkisstjórn þarf að glíma við.

Svo bætist hitt við, og ég er alls ekki andvíg því, að beita sköttum eða öðrum ívilnunartækjum sem ríkisvaldið hefur til að hjálpa atvinnugreinum að koma undir sig fótunum, ég hef alls ekkert á móti því, nýsköpunarsjóði, að styrkja sprotafyrirtæki og annað slíkt, það er alveg sjálfsagt. Þegar atvinnugrein er hins vegar komin vel á veg á hún að standa undir sér og þá hljótum við að ætlast til þess og við hljótum meira að segja að fagna því, rétt eins og við fögnum því þegar börnin fara að heiman því að þau eiga að þroskast og fara að heiman, þegar atvinnugreinar sem við höfum stutt við geta staðið undir sér og lagt líka í púkkið fyrir samfélagsþjónustuna sem er okkur öllum nauðsynleg, ég tala nú ekki um eins og í sambandi við ferðaþjónustuna allan þann gífurlega kostnað sem við öll höfum af því að geta tekið sómasamlega á móti öllum þeim ferðamönnum sem hingað vilja koma. Það eru alls konar innviðir. Það eru ekki bara náttúruperlurnar, það eru vegirnir og lögreglan. Lögreglan þarf að hafa miklu meira eftirlit á vegum þegar er komið fullt af ferðafólki. Það hefur verið nefnt að hér gerast hörmulegir atburðir, ferðafólk týnist og að því er leitað og þjóðfélagið ber alls konar kostnað af því.

Mér finnst mjög undarlegt að við ætlum að halda áfram að fara svona með ferðaþjónustuna þegar hún vex eins og hún gerir núna. Hún óx á milli 18 og 19% á síðasta ári. Ég held að hún hafi vaxið um 23% á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs. Allt mjög gleðilegt, en að við skulum þá líka ætla að halda áfram að niðurgreiða þessa þjónustu finnst mér algerlega ótrúlegt vegna þess að það er það sem hefur gerst. Síðan skatturinn var lækkaður úr 14 niður í 7% er innskatturinn hjá ferðaþjónustunni orðinn hærri en útskatturinn sem hún greiðir. Í rauninni má segja að verið sé að leggja ferðaþjónustunni, þ.e. gistingunni, til um 200 milljarða á ári. Mér finnst það óskynsamlegt. Ég er þeirrar skoðunar. Ég er hins vegar sammála því og vil út af fyrir sig ekki gera lítið úr því að meira óhagræði er af því að hafa þrjú skattþrep en eitt og meira óhagræði er af því að hafa þrjú skattþrep en tvö, eins og kom fram hjá hv. þingmanni áðan sem rekur gisti- og veitingaþjónustu og segir að ekki sé nokkur vandi að aðskilja þetta allt með einhverjum tökkum. Samt sem áður er af þessu óhagræði. Best væri ef virðisaukaskattsálagning væri bara ein tala. Ég er líka þeirrar skoðunar að það hafi ekki verið mjög sniðugt að vera með sérstakt skattþrep fyrir gistingu.

Ég ætla að leyfa mér að segja, þótt það sé örugglega ekki til vinsælda fallið hjá þeim sem reka ferðaþjónustu, að ég er þeirrar skoðunar að við hefðum átt að hækka virðisaukaskatt á gistingu upp í 25,5% eins og lagt var til. Það kom hins vegar fram áðan að í nefnd hefði því verið breytt í 14%. Ég hef á hinn bóginn mikla samúð með því sem fram kom hjá ferðaþjónustunni á þeim tíma, að gjöld af þessu tagi megi ekki leggja á of seint. Það þarf að gera með góðum fyrirvara. Ég leyfi mér samt að efast um að þau miklu harmakvein sem komu frá ferðaþjónustunni hafi ekki verið svolítið ýkt. Á hinn bóginn ber að taka tillit til þess.

Ég segi því að mér fyndist ánægjulegt ef það kæmi þá fram, gæti kannski komið fram í nefnd, að verði menn við þeirri tillögu sem hæstv. fjármálaráðherra leggur fram yrði ákveðið á sama tíma að eftir tvö ár verði virðisaukaskattur á gistiþjónustu eins og almennur virðisaukaskattur er á aðrar atvinnugreinar í landinu. Þá yrði það gert með tveggja ára fyrirvara og ferðafyrirtækin hefðu þá nægan tíma til að koma því inn í verðskrár sínar. Fram kemur í skýrslu Hagfræðistofnunar háskólans að í meðalkostnaði við ferðir til Íslands mundi hækkunin sem yrði á gistingunni vega innan við 2% þó að farið væri með skattinn úr 7% upp í 25,5%. Þetta er það sem mér þætti skynsamlegt að gera.

Ég vil ekki ofskattleggja atvinnuvegina. Ég held að enginn í þessum sal vilji gera það, en við skulum líka átta okkur á því að ef atvinnuvegirnir taka ekki sinn skerf af skattlagningu og borga ekki sinn skerf af tekjuöfluninni sem þarf til að standa undir samfélagskostnaðinum þá verða tekjuskattar einstaklinga og virðisaukaskattur sem einstaklingar greiða að standa undir honum. Þess vegna tel ég að þetta sé ekkert smámál, þetta er stórmál. Það er stórmál að afnema tekjur sem eru í hendi eða hafa verið lagðar á og segja ekki hvað eigi að koma í staðinn. Á að skera niður eða hvað? Það er stórmál hvernig skattlagningu er almennt hagað í landinu.