142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[20:08]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það var margoft rætt í umræðunni um að færa Náttúruminjasafnið í Perluna að nauðsynlegt væri að finna því safni verðugt húsnæði. Það var líka margoft tekið fram að þetta húsnæði hentaði ekki og margir höfðu á því þá skoðun að svo væri ekki.

Sú sem hér talar hefur slegist fyrir Náttúruminjasafni lengi og breytingum á því ferli sem það hefur verið í án árangurs, en mun ekki gefast upp í því. Náttúruminjasafnið í Perluna er að mati margra ekki réttur staður. Það þýðir ekki að fólk vilji ekki finna safninu heimili.

Hv. þm. Svandís Svavarsdóttir talar um að hér örli á yfirlæti. Við sátum saman á síðasta kjörtímabili. Þá talaði þáverandi meiri hluti um þjóðina sem stóð að baki þeim, um þjóðina sem hafði valið fólk til forustu, um þjóðina sem vildi leggja áherslu á þau gildi sem þá ríktu, um meiri hlutann sem var á þingi, um meiri hlutann sem átti að ráða og meiri hlutinn ræður. Það var þannig á síðasta þingi og verður áfram svo.

Virðulegur forseti. Það er hins vegar ekkert sem segir að ekki sé hægt að tala saman, vinna saman og reyna að leita lausna. En það er ekkert yfirlæti fólgið í því þegar talað er um að þjóðin, kjósendur í þessu landi hafi kosið hér 27. apríl. Ég geri ekki lítið úr þeim sem kusu aðra flokka en það var kjörinn nýr meiri hluti og hann hefur að baki sér meiri hluta þeirra kjósenda sem kusu. Þannig er það. Ef það kallast yfirlæti að ræða það hlýtur það að vera sams konar yfirlæti af hálfu hv. þingmanns að finna alltaf öðrum allt til foráttu þegar kemur að stefnumálum, hugmyndafræði eða stefnu og virða ekki (Forseti hringir.) að til sé önnur skoðun en hennar eigin.