142. löggjafarþing — 15. fundur,  27. júní 2013.

störf þingsins.

[10:44]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Í gær komu fréttir af sæstreng til Evrópu. Hér er um að ræða framkvæmd sem kostar á bilinu 400–500 milljarða sem er álíka mikið og bókfært verð eigna Landsvirkjunar, eða u.þ.b. tvöfalt það sem kostar að byggja samsvarandi atvinnustarfsemi á Íslandi sem nýtir það rafmagn sem færi um sæstreng. Ég held að við þurfum að staldra aðeins við og athuga hvar við ætlum að virðisauka rafmagnið. Ætlum við að gera það hér heima eða ætlum við að gera það erlendis?

Mér finnst það síðara svipað og að selja útlendingum veiðileyfi að íslensku fiskimiðunum. Ég held að engin okkar vilji það. Auk þess mun sæstrengur hækka verulega verð á orku til heimila á Íslandi og ekki síður til hinna smærri og meðalstóru orkusækinna fyrirtækja sem við öll í þessum sal höfum talað um að þurfi að styrkja. Mér finnst að við séum svolítið að bíta í halann á okkur og ég spyr: Hvernig ætlum við að mæta ylræktinni með lækkun raforkuverðs ef við ætlum að flytja orkuna út?

Auk þess verða gerðir á næstu árum, innan ekki svo langs tíma, nýir samningar um orku til þeirra stóriðjufyrirtækja sem eru í landinu. Frá árinu 2018 og næstu ár á eftir eru samningar fyrir höndum og ég spyr: Verður svigrúm til þeirra samninga eða ætlum við að flytja alla orkuna úr landi?

Ég varpa þessu fram til að við hugsum þetta mál. Mér finnst að við þurfum að huga vel að því hvernig við ætlum að nýta orkuna í framtíðinni og hvort virðisaukinn af henni eigi að vera eftir í landinu eða hvort við ætlum að flytja hann líka út.