142. löggjafarþing — 22. fundur,  4. júlí 2013.

úthlutunarreglur LÍN og kjör stúdenta.

[11:04]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Hæstv. menntamálaráðherra hefur í krafti embættis síns og með aðstoð nýs stjórnarformanns LÍN breytt úthlutunarreglum sjóðsins með tveggja mánaða fyrirvara þvert á tilmæli umboðsmanns Alþingis um sama mál frá 2010.

Í ágúst verða námsmenn að skila 75% námsárangri, þ.e. frá og með næsta skólaári, á önn til að fá námslán frá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Hæstv. ráðherra hefur í þessum ræðustól rökstutt ákvörðun sína með því að segja að svona hafi þetta verið áður, eins og það séu rök í sjálfu sér, og að námsmenn, með leyfi forseta, „eigi að vera í skólanum af fullri alvöru“. Mér þætti fróðlegt að vita skilgreiningu hæstv. ráðherra á því. Eru þeir sem eru til dæmis í námi með vinnu og með börn á framfæri eða þeir sem sinna námi sínu hægar af einhverjum öðrum ástæðum ekki að sinna námi sínu af fullri alvöru, hæstv. menntamálaráðherra?

Stjórnvöld og samfélagið allt hefur undanfarið ár talið okkur hafa hag af því, fjárhagslegan hag til lengri tíma litið, að efla og auka aðgengi til náms. En nú ber annað við, ráðherra kveðst verða að hagræða og niðurskurðarkrafan í þessu tilfelli er 127 milljónir.

Herra forseti. Ég bara trúi því ekki þegar ríkisstjórnin hafnar milljörðum í ríkiskassann frá útgerðinni og frá ferðaþjónustunni, eins og hún gerir á þessu þingi, að 127 milljónir séu mikið vandamál í því stóra samhengi. Eru þessar skattalækkanir ykkar ekki hvort sem er að fara að bjarga öllu?

Nei, herra forseti, þetta er ný stefna. Við erum beinlínis að horfa á stefnubreytingu hjá núverandi ríkisstjórn í aðgengi að háskólamenntun og fjölbreytni til náms. Það er verið að loka dyrum til hálfs og það þýðir að sumir komast ekki inn. Ef fólk getur ekki hert sig í hraða er verið að útiloka það frá lánasjóðnum.

Herra forseti. Það eru margar spurningar sem brenna á mér varðandi þessar nýju úthlutunarreglur. Fyrst vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvernig vinnuferlið hafi verið við þessa breytingu hjá sjóðnum. Var haft samráð við fulltrúa stúdenta? Ef svo er, hvernig var því háttað?

Hvernig var vinnan við breytinguna útfærð? Var gerð greining á því hvaða hópar stúdenta mundu fara verst út úr breytingunni, eins og til dæmis má gera með aðferðum um kynjaða hagstjórn?

Þá vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvað hugsanlegt brottfall þeirra stúdenta, sem ekki munu geta haldið námi áfram eftir breytinguna, muni kosta samfélagið. Er búið að áætla það?

Að lokum er ég hugsi yfir því hvernig þessi skerðing í úthlutunum verður í praxís. Það er nefnilega þannig að í raun er verið að krefjast 100% árangurs í mörgum deildum háskólanna, ekki 75%. Það er út af einingakerfunum og uppsetningu námsleiða. Margar þeirra bjóða nær eingöngu upp á 10 eininga kúrsa en 30 einingar teljast fullt nám. LÍN krefst 22 eininga til að fá námslán þannig að ef nemandi fellur einhverra hluta vegna í einu fagi nær hann aðeins 20 einingum. Hann getur ekki fengið þær 22 einingar sem LÍN krefst nú vegna kerfisins. Hann þarf því að sýna fram á 100% námsárangur til að vera lánshæfur hjá LÍN. Ætlar ráðherra í það minnsta að koma til móts við þessar athugasemdir stúdenta?