143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[23:00]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég verð nú að taka undir með þingmönnum sem hafa gert að umtalsefni fjarveru formanns og varaformanns fjárlaganefndar. Ég verð líka að segja að ég deili ekki þeim jólaanda sem fram kom í máli hv. þm. Helga Hjörvars þar sem hann taldi það ekkert ámælisvert að hvorki sæist til forsætisráðherra né fjármálaráðherra í þingsal við umræðu um fjáraukalög. Það hafa nú ekki verið slímusetur af hálfu þeirra manna í þingsölum nú í haust. Ég vorkenni þeim ekki að sitja yfir umræðum um mál sem eru stjórnarmál og skipta miklu um fjárhag ríkisins; mál sem fela í sér margháttaðar pólitískar breytingar frá samþykktum fjárlögum fyrir yfirstandandi ár og full ástæða er til að fara fram á að forustumenn ríkisstjórnarflokkanna fylgi úr hlaði og verji. Þó svo að hin almenna regla sé sú að við 2. umr. séu mál komin á forræði þingsins er auðvitað um sérstakt mál að ræða hér og eðlilegt að kalla eftir því að pólitísk leiðsögn sé á staðnum.