143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

raforkustrengur til Evrópu.

59. mál
[15:49]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni innlegg hennar og sömuleiðis fyrir alla umræðuna í dag, hún hefur verið góð. Ég vildi bara hnykkja á því að skilningur hennar á vinnu og á áliti atvinnuveganefndar er réttur. Hæstv. ráðherra bað um leiðbeiningar frá þinginu um hvað skyldi gera næst. Nú hefur hún fengið þær, ekki bara frá atvinnuveganefnd heldur eru þarna fylgiskjöl frá fleiri þingmönnum sem sitja í öðrum nefndum, umhverfis- og samgöngunefnd og svo efnahags- og viðskiptanefnd. Þar sýnist mér fólk allt vera á sama máli. Það er kallað eftir meiri upplýsingum. Þingið felur hæstv. ráðherra að vinna málið áfram, vinna þessar upplýsingar á grundvelli þeirra atriða sem fram komu í skýrslu ráðgjafarhópsins um lagningu sæstrengs.

Margir vildu ef til vill að þetta mál ynnist hraðar. Við í Bjartri framtíð lögðum fram þingsályktunartillögu sem laut að því að ráðherra færi strax í þessa vinnu á grundvelli tillagnanna í skýrslunni. Ég var ekkert endilega á því fyrst að við ættum að vera að tefja tímann, ef svo má segja, og ræða þetta hér, en ég held að það hafi verið mjög gott fyrir okkur. Ég hef lært að það er miklu betra að við förum í gegnum þetta og það tók ekkert langan tíma í sjálfu sér. Því nú erum við á sama stað og getum haldið áfram.