143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:20]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Sú tillaga hæstv. utanríkisráðherra sem hér hefur verið lögð fram er efnislega gölluð. Hún stenst ekki lög um þjóðaratkvæðagreiðslur og heldur ekki skiptingu verkefna með þingi og framkvæmdarvaldi samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins. Á þessa ágalla hef ég bent í bréfi til hæstv. forseta og ætlast til þess að þeir ágallar komi til efnislegrar meðferðar við umfjöllun tillögunnar í þinginu.

Tillagan er án lýðræðislegs umboðs. Hvorugur stjórnarflokkanna nefndi fyrir kosningar að til stæði að slíta aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Báðir stjórnarflokkarnir töluðu um hlé á aðildarviðræðum og báðir gáfu fyrirheit, misskýr, um þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu. Það er rétt hjá hæstv. utanríkisráðherra að í tilviki Framsóknarflokksins var það nokkuð óljósara en í tilviki Sjálfstæðisflokksins, en margtilvitnuð orð forustumanna Sjálfstæðisflokksins, alls ráðherrabekkjar Sjálfstæðisflokksins, á síðustu dögum valda því að enginn þarf að velkjast í vafa um skýr fyrirheit þess flokks um að þjóðin mundi ákveða framhald aðildarviðræðna en ekki stjórnmálaflokkar í meiri hluta á Alþingi.

Virðulegi forseti. Þau sinnaskipti ríkisstjórnarflokkanna sem lýsa sér í tillögunni byggja ekki á neinum efnislegum grunni. Í stjórnarsáttmála er talað um hlé á aðildarviðræðum og að gerð verði sú skýrsla sem við höfum rætt hér í vikunni, um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Í kjölfar hennar yrði síðan tekin ákvörðun um næstu skref.

Ekkert í þeirri skýrslu styður þá ákvörðun að draga aðildarumsóknina til baka. Skýrslan er góð en eðli máls samkvæmt ekki neinn stóridómur um það mál sem hér er til umræðu. Í henni er margt gott en í hana vantar ýmislegt. Nefnt hefur verið efnahagslegt hagsmunamat og félagslegir þættir, svo bara tvennt sé nefnt af fjölmörgum þáttum sem raktir hafa verið í þingumræðunni um skýrsluna á undanförnum dögum.

Margt er skýrt í skýrslunni. Þar er til dæmis tekið skýrt fram að það er ekkert að óttast í samningum um landbúnaðarmál, en lengi hefur verið látið í veðri vaka af yfirlýstum andstæðingum aðildar Íslands að Evrópusambandinu að á því sviði væri mikil hætta vegna þess að Evrópusambandið hefði ekki færi á að mæta þörfum Íslands. Nú er skýrt í þessari skýrslu að það er óhætt að halda áfram á því sviði.

Sumt er rangtúlkað af hæstv. utanríkisráðherra í tillögunni og þó einkanlega það sem lýtur að sjávarútvegi. Það er ljóst og á allra vitorði að það er margyfirlýst stefna forustumanna Evrópusambandsins og forustumanna einstakra ríkja Evrópusambandsins að Evrópusambandið sé tilbúið til samninga við Ísland um lausnir í sjávarútvegsmálum á grundvelli þeirrar yfirlýsingar sem unnin var í meirihlutaáliti utanríkismálanefndar árið 2009 þar sem talað er um sérlausnir fyrir Ísland sem séu varanlegar á sviði sjávarútvegsmála. Það liggur fyrir í hinni sameiginlegu sjávarútvegsstefnu að úti um allt í Evrópusambandinu eru sérlausnir við lýði. Það eru sérstakar reglur við Asoreyjar, Madeira, Kanaríeyjar og í Miðjarðarhafinu. Alls staðar eru ólíkar reglur vegna þess að aðstæður eru ólíkar. Ólíkar reglur gilda um ólík svæði vegna þess að það er innbyggður sveigjanleiki í hina sameiginlegu sjávarútvegsstefnu til að hún geti nýst í samræmi við staðbundnar aðstæður. Það er því ekkert sem bendir til annars en að alger sérstaða íslensks sjávarútvegs og sérstaða íslenskrar lögsögu yrði traustur grunnur fyrir samninga um sérlausnir fyrir Ísland.

Til að styðja þetta frekar segir í lokaályktunarorðum í kafla D.1 á bls. 147 í skýrslu Hagfræðistofnunar:

„Þegar um er að ræða sérlausnir, sem kann að verða samið um, þarf að taka skýrt fram í aðildarsamningi um það ef þær eiga að verða varanlegar.“

Þarna er gengið út frá því að mögulegt sé að semja um sérlausnir og áréttað að mikilvægt sé að kveða skýrt á um þær og varanleika þeirra í aðildarsamningi.

Hæstv. fjármálaráðherra sagði á klappfundi í Valhöll fyrr í vikunni að Ísland ætti ekkert erindi í sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins og mundi aldrei fá fullnægjandi lausnir vegna þess að Malta hefði fengið tilteknar lausnir og heildarafli Möltu væri sem svaraði afla eins línubáts. Sú staðhæfing styður mál mitt því að það er ekkert sambærilegt milli Íslands og íslensks sjávarútvegs, sem er grundvallaratvinnugrein heillar þjóðar, og sjávarútvegs á Möltu þar sem heildarafli upp úr sjó er sem svarar afla eins línubáts. Það eru allt aðrar aðstæður á Íslandi. Það er viðurkennt af viðsemjandanum og fyrir því hafa verið færð skýr rök af Íslands hálfu.

Virðulegi forseti. Síðan er önnur skýrsla væntanleg og það sýnir málefnafátækt ríkisstjórnarinnar, ótta hennar við staðreyndir og upplýsta umræðu að hlaupið sé til með tillögu þessa áður en skýrsla aðila vinnumarkaðarins lítur dagsins ljós og að ríkisstjórnin skuli efna til fullkomins ágreinings við aðila vinnumarkaðarins um framhald þessara mála.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að ríkisstjórnin muni leitast við að virkja samtakamátt þjóðarinnar og vinna gegn því sundurlyndi og tortryggni sem einkennt hafi íslensk stjórnmál. Unnið verði að víðtækri sátt við aðila vinnumarkaðarins.

Virðulegi forseti. Það er með ólíkindum að lesa þessi orð í ljósi atburða síðustu viku þegar ríkisstjórnin leggur lykkju á leið sína til að rjúfa friðinn um stefnumörkun í Evrópumálum, efna til eins harkalegra átaka og henni er nokkur kostur um Evrópumál og atyrða og hæða aðila vinnumarkaðarins. Gekk þar hæstv. utanríkisráðherra fremstur í flokki þegar hann gaf þeim og skýrslugerð þeirra þá einkunn að skýrsla sem virt háskólastofnun mundi vinna fyrir Verslunarráð Íslands, Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands væri að engu hafandi vegna þess að verkbeiðendur væru aðildarsinnar.

Það er erfitt að finna einbeittari vilja ríkisstjórnar til að rjúfa samstarf við aðila vinnumarkaðarins og frið í samfélaginu milli stjórnmálanna og vinnumarkaðarins en þessi orð og þessar gerðir. Og það er erfitt að finna nokkra framgöngu í brýnu hagsmunamáli sem er síður til þess fallin að virkja samtakamátt þjóðarinnar og vinna gegn sundurlyndi, sem vissulega hefur einkennt stjórnmálin, því miður, á undanförnum árum, árunum eftir hrun.

Það verður enginn friður um öfgastefnu ríkisstjórnarinnar. Hún virðist hafa verið tekin í herkví öfgasinnaðra afla innan beggja stjórnarflokkanna sem freista þess nú að neyta tímabundins aflsmunar til að knýja fram niðurstöðu í brýnasta hagsmunamáli þjóðarinnar þvert á þjóðarhag. Um það verður aldrei friður að ríkisstjórn ákveði að loka dyrum fyrir fyrirtæki í landinu sem þau eru sammála um að þurfi að vera opnar ef hér eigi að verða eðlileg efnahagsleg framþróun. Og það eru engin skilaboð til launafólks á Íslandi að það eigi að taka frá launafólki vonina um traustan, öruggan, gjaldgengan gjaldmiðil án þess að sama ríkisstjórn hafi séð sóma sinn í að koma með trúverðugan valkost við alþjóðlega viðurkenndan gjaldmiðil eins og evru. Íslenskt launafólk hefur of lengi verið í úlfakreppu með gjaldmiðil sem einhliða er hægt að breyta um skráningu á af hálfu stjórnvalda og markaðsafla. Það þarf að binda enda á þær aðstæður.

Það er, virðulegi forseti, vandalaust að ná samstöðu um málamiðlun í þessu máli. Það er það stórkostlega við það. Hér er efnt til átaka fullkomlega að óþörfu. Á undanförnum dögum höfum við ítrekað boðið fram grunn til samkomulags. Ég bind vonir við að hægt verði að fá stjórnarflokkana til að snúa af villu síns vegar á næstu dögum og horfa á það sem getur sameinað okkur. Lausn í þessu máli þarf að taka mið af skýrum málflutningi stjórnarandstöðu og (Forseti hringir.) skýrum þörfum aðila vinnumarkaðarins. Það er hægt að ná samstöðu um skynsamlegar leiðir í þessu máli. Við skulum vona að við berum gæfu til að gera það á næstu dögum.