143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[12:23]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Þetta er auðvitað algerlega makalaus framkoma af hálfu hæstv. utanríkisráðherra og ríkisstjórnarinnar. Þegar við eigum í samningaviðræðum á alþjóðavettvangi um gríðarlega mikilvæg hagsmunamál, eins og makrílmálið er, og erum í þeirri stöðu að vera með gagnkvæman skilning við Evrópusambandið og frændur okkar Færeyinga að eiga við Norðmenn í átökum eins og svo oft áður um hagsmuni í fiskveiðimálum, þá ákveður ríkisstjórnin að segja hér sundur friðinn, svíkja eigin kosningaloforð, koma inn í þingið með þetta mikla deilumál, reyna að troða því í gegn og ýta öllu öðru af dagskrá og er svo upptekin af þessum leiðangri að á meðan setjast Norðmenn að samningaborðinu án þess að við vitum af því. Síðan les hæstv. utanríkisráðherra um það á internetinu að þjóðirnar sem hann hefur kosið að snúa baki við séu eðlilega búnar að semja á bak við hann, eins og hann segir sjálfur. Allt um það.

Ég vildi nota þetta tækifæri til þess að spyrja hv. þingmann annars vegar, vegna þess að hann er efasemdamaður um aðild að Evrópusambandinu: Hverjir eru mikilvægustu ávinningar sem þingmaðurinn sæi við það að verða aðili að Evrópusambandinu? Og hins vegar: Hvaða hagsmuni óttast hann helst að við getum ekki tryggt í aðildarviðræðum við Evrópusambandið? Er hann í hópi þeirra sem hafa fyrst og fremst áhyggjur af yfirráðum yfir auðlindum okkar og mundu að þeim málum leystum styðja aðildarsamning við sambandið?