143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:00]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja það að ég skil ekki hvað rekur virðulegan forseta til að rjúfa friðinn í þinginu. Við höfum staðið hér fyrir málefnalegri umræðu alla þessa viku. Við höfum látið það óátalið þó að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafi ekki birst hér í þingsal, fólkið sem er bert að því að svíkja loforð þorir ekki einu sinni að koma hingað og standa fyrir máli sínu. Það þorir ekki einu sinni að koma hér í ræðu. Við höfum samt ekki verið að gera úr því mál. Við höfum ekki látið það trufla umræðuna.

En það er alveg ljóst að ef menn ætla að fara að leika svona fruntaleiki eins og forseti er að stinga upp á núna, að efna hér til kvöldfunda og næturfunda, þá er auðvitað verið að slíta sundur friðinn. Það er búið að skapa hér frið um framhald mála undanfarna daga og það er á ábyrgð forseta að rjúfa það. Það er margbúið að segja við forustumenn stjórnarflokkanna hvað þarf að koma til. (Gripið fram í.) Það liggur ljóst fyrir að forusta ríkisstjórnarinnar er ráðalaus í málinu og ræður ekki við að taka ákvarðanir um næstu skref.