143. löggjafarþing — 86. fundur,  1. apr. 2014.

umræða um skuldaleiðréttingarfrumvarp.

[13:33]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Stærsta aprílgabb í sögu Framsóknarflokksins átti að vera á dagskrá hér í þinginu í dag, þ.e. skuldafrumvarp ríkisstjórnarinnar, en þá bregður svo við í gærkvöldi að þingflokksformaður Framsóknarflokksins tilkynnir okkur að þau leggist gegn þeirri dagskrá sem samið hafði verið um.

Þessi viðkvæmni hæstv. forsætisráðherra fyrir dagsetningunni 1. apríl verður þess vegna til þess að málið kemst ekki til umfjöllunar fyrr en á morgun og þar með ekki til nefndar fyrr en í næstu viku. Afboðaður hefur verið fundur í fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd á fimmtudag til að fjalla um þessi stóru og mikilvægu mál.

Við í stjórnarandstöðunni vildum greiða fyrir því að koma málinu til nefndar á morgun. Ég harma það að viðkvæmni forsætisráðherra fyrir dagsetningunni 1. apríl skuli tefja fyrir úrvinnslu skuldamálanna í þinginu.