143. löggjafarþing — 86. fundur,  1. apr. 2014.

störf þingsins.

[14:04]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Í dag er 1. apríl og stóra skuldaleiðréttingarmál ríkisstjórnarinnar mátti ekki ræða í dag út af aprílgabbi og þess vegna verð ég að segja, og segi það sem ég sagði í gær, að mér finnst eins og öll þessi úrræði og þessi ríkisstjórn séu bara eitt stórt aprílgabb.

Hv. þm. Karl Garðarsson ræddi áðan um skuldaleiðréttinguna, þá 80 milljarða sem eiga að koma inn í hana, og aðrir tala um að ekkert hafi verið gert á umliðnum fjórum, fimm erfiðleikaárum Íslandssögunnar.

Er það svo? Nei. Samkvæmt upplýsingum frá velferðarráðuneytinu og Samtökum fjármálafyrirtækja voru á síðasta kjörtímabili eða fram að þessu veittir ansi miklir peningar í skuldaúrræðamál. Með greiðslujöfnun einstaklinga hjá Íbúðalánasjóði voru 7,6 milljarðar kr. Sérstök skuldaaðlögun var 7,3 milljarðar kr. Í 110%-leiðinni eru það 46 milljarðar kr., í vaxtabætur 9,2 milljarðar kr. og í sérstakar vaxtaendurgreiðslur 12,3 milljarðar kr.

Þarna tek ég ekki inn í það sem sagt er hjá velferðarráðuneytinu um frystingar upp á 33 milljarða kr.

Mér sýnist miðað við þessa upptalningu sem skuldaúrræðin, sem búið er að beita fram að þessu síðustu fjögur árin, séu hærri tala en sú sem verið er að setja inn núna. Hún átti að kallast heimsmet í skuldaleiðréttingu frá hæstv. forsætisráðherra.

Eins og ég segi samt þorðu ríkisstjórnarflokkarnir ekki að ræða þetta mál 1. apríl. Okkur var ekkert að vanbúnaði að byrja að ræða þetta í dag en ríkisstjórnarflokkarnir vildu ekki koma með þetta út af spéhræðslu sinni við að þessi leiðréttingapakki er ekki neitt sem orð er á gerandi. (Forseti hringir.) Fólk er að þakka ríkisstjórninni fyrir (Forseti hringir.) að fá að nota peninga sína úr séreignarsparnaði til að borga upp íbúðalán.

Um allt land eru allir að hæðast að þessum litla pakka.