144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[18:49]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að taka undir lokabrýningu hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur um að við förum að sækja peningana þangað sem þá er að finna en afsölum ríkinu ekki miklu skattfé og komum á sama tíma með íþyngjandi úrræði á þann hóp sem er hvað verst settur í samfélaginu.

Það hefur verið svolítið áhugavert að fylgjast með umræðunum í dag og greinilegt að það eru mjög andstæð sjónarmið uppi þegar kemur að því hvort þetta frumvarp sé rétta leiðin til þess að virkja fólk, og þar hef ég mínar efasemdir. Í greinargerð eða fylgiskjölum með frumvarpinu segir í samantekt á niðurstöðum að það sé mat velferðarráðuneytisins að ef frumvarpið verði lögfest hafi það jákvæð áhrif á hag sveitarfélaga. Það kemur einnig fram í umsögn frá fjármálaráðuneytinu að í umsögn þess sé einungis fjallað um áhrif lagasetningarinnar á fjárhag ríkissjóðs. Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann: Telur hv. þingmaður að hér sé búið að greina nægilega vel hvaða félagslegu áhrif það hefur ef fjárhagsaðstoðin er tekin af fólki með því að setja það í svona virkniskilyrðingar, hvaða félagslegu áhrif (Forseti hringir.) það mun hafa? Er nóg að vísa bara í fjárhag sveitarfélaga?