144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[19:03]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar. Það styttist í kjördæmaviku og ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður muni þá fara í kjördæmi sitt sem er Norðvesturkjördæmi. Ég vil nefna nokkur sveitarfélög sem eru með skilyrðingar í reglum sínum, þrátt fyrir lagalegu óvissuna sem hefur verið bent á. Það er Akranesbær, það eru Bolungarvíkurkaupstaður og Súðavíkurhreppur, Borgarbyggð, Dalabyggð og Skorradalshreppur, félagsþjónusta Austur-Húnavatnssýslu, Húnaþing vestra og Bæjarhreppur, Hvalfjarðarsveit, Snæfellsbær, Stykkishólmsbær, Eyja- og Miklaholtshreppur, Grundarfjarðarbær og Helgafellssveit, sveitarfélagið Skagafjörður og Akrahreppur og svo er hérna velferðarþjónusta Árnesþings.

Við fundum út að það væri minna um skilyrðingar hjá félagsþjónustu Vestur-Barðastrandarsýslu en þar þarf þó að skila inn skráningu frá vinnumiðlun.