144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

störf þingsins.

[15:11]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegi forseti. Það er velkomið að koma hingað í pontu og reyna að svara spurningum hv. þingmanns. Ég verð samt að játa undrun mína á því að hv. þm. Guðmundur Steingrímsson skuli beina til mín spurningu varðandi afnám hafta. (Gripið fram í: Þú ert aðalmaðurinn.) Eins og hv. þingmanni og fleirum er kunnugt er afnám hafta ekki á forræði efnahags- og viðskiptanefndar og ég er ekki aðalmaðurinn í afnámi hafta. (Gripið fram í: Víst.) Þetta er á borði ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnin hefur haft formlegan hátt á því hvernig hún upplýsir þingmenn með sérstakri (Gripið fram í: … til nefndanna.) nefnd þar sem menn eru (Gripið fram í.) bundnir trúnaði — fyrirgefið, forseti, fæ ég kannski meiri tíma til að svara spurningunni? Það er sem sagt sérstök nefnd sem í situr meðal annarra hv. þm. Guðmundur Steingrímsson, sem beinir til mín spurningum, en hann situr í báðum þessum nefndum, efnahags- og viðskiptanefnd og í sérstakri nefnd þingflokkanna, sem er bundin trúnaði, og hann fær að spyrja spurninga þar beint og milliliðalaust um það sem honum liggur á hjarta. Ég er því jafn vel upplýstur og þingmaðurinn um þetta ferli, allan þann undirbúning og allt það sem til stendur, en ég er ekki í færum til að svara.

Hins vegar fannst mér hæstv. forsætisráðherra svara mjög vel í gær spurningum hv. þingmanns. Ég treysti mér ekki til að upplýsa neitt frekar um þetta en þar var gert. Það er að sjálfsögðu hagur kröfuhafa að fá sem mest út úr þessum skiptum og að hagur þeirra verði ekki skattlagður. Það er óhjákvæmilegt að ef kröfuhafarnir fá sem mest fær þjóðin minna og þeir sem búa í landinu og lífskjör hér geta skerst mjög mikið. Þetta er einfaldlega hagsmunatogstreita og mjög mikilvægt að vanda til verks. Þess vegna er ábyrgðarhlutur að vera að reka mjög á eftir verkinu. Við viljum frekar að það verði gert vel og ég held að allir þingmenn séu sammála um að það verði að vera vandað. Hér eins og annars staðar gildir það að ekki er hægt að saga tvisvar, (Forseti hringir.) þess vegna er betra að mæla þetta (Forseti hringir.) eins vandlega og mögulegt er.