144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[14:52]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það færir mér nú bara frekari rök fyrir því hversu skynsamlegt það væri að skjóta lagastoð undir tímabundna sértæka stjórnun á makrílveiðunum áfram einhver ár eða missiri. Þar með væru öll þau vandamál leyst.

Við skulum ekki gleyma því að í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða stendur að þetta sé sameiginleg auðlind í eigu þjóðarinnar og að stjórnvöld fari svo með hana. Við eigum ekki að vera of feimin þegar við ræðum um stöðu löggjafans til þess að taka ákvarðanir á þeim grundvelli sem og á grundvelli annarra almennra ákvæða og markmiða laga um stjórn fiskveiða. Þær hafa líka vægi gagnvart lagaþrætum um hvað stjórnvöldum beri að gera eða ekki að gera í þessum efnum.

Umboðsmaður segir að annaðhvort eigi að setja þetta í hlutdeild eða ákveða með lögum að með þetta sé farið á einhvern annan hátt. Þess vegna er það í sjálfu sér alveg eðlilegt að menn bregðist við og velti því fyrir sér. Ég hallast að síðari kostinum, eða kostinum sem hæstv. ráðherra nefndi sjálfur. Það vantar að mínu mati miklu sterkari rök fyrir því að það sé tímabært og rétt að hlutdeildarsetja, jafnvel þó að menn kaupi að einhverju leyti þær röksemdir að bregðast þurfi við, að skynsamlegt sé að stjórnvöld bregðist við, vegna þess að hinn kosturinn blasir við og er alveg augljós. Þar hefur löggjafinn í mínum huga alveg klárlega stöðu til að gera nánast hvað sem er, sérstaklega í þessu tilviki. Í ljósi stuttrar sögu makrílgengdarinnar hingað og í ljósi óvissunnar sem verið hefur um þetta árlega, í ljósi þess að ósamið er um hlutdeild okkar í stofninum o.s.frv., eru einhverjar réttmætar væntingar um að menn eigi að fá þetta í framseljanlegan kvóta um aldur og ævi. Það er bara ekki mikið með það að gera, það er bara græðgi að líta (Forseti hringir.) svo á að með því að tilteknir aðilar áttu hægast um vik að fara og sækja þennan fisk fyrstu árin eigi þeir hann. Það er ekki þannig. Þjóðin á þetta og við getum stjórnað því hvernig það er nýtt.