144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

um fundarstjórn.

[18:07]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Hæstv. forseti. Það er alveg langt í frá að maður sé þannig stemmdur að vilja ræða þetta mál efnislega. Ég verð að segja fyrir mitt leyti, og mér heyrast margir þingmenn vera á þeim nótum, að ég er mjög ósáttur við málsmeðferðina hérna. Mér finnst við vera með lagaumgjörð um rammaáætlun í algjöru uppnámi. Áður en lengra er haldið á nokkurn hátt við að ræða kosti og galla einhverra virkjana verðum við að fá þau mál á hreint.

Það er talað mikið um rétt þingmanna til að gera hitt og þetta. Réttur þingmanna er að ræða mál efnislega við tvær umræður. Það má þó ekki breyta þeim málum mikið á milli umræðna, breyta þeim svo mikið að um algjörlega eðlisólík mál verður að ræða. Þetta mál kom hér inn sem tillaga frá hæstv. umhverfisráðherra um að setja einn virkjunarkost í nýtingarflokk, sem var Hvammsvirkjun, það var rætt við fyrri umræðu tillögunnar. Er það ekki brot á rétti þingmanna að breyta síðan eðli tillögunnar svo rosalega að hún snýst allt í einu um fimm virkjunarkosti í síðari umræðu? (Forseti hringir.) Hver er réttur þingmanna gagnvart svona málsmeðferð, hæstv. forseti?

(Forseti (SJS): Forseti vill biðja menn að hafa hljóð í hliðarsal, jafnvel þótt þar eigi í hlut fyrrverandi formaður Lögmannafélagsins og hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra.)[Hlátur í þingsal.]