144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[15:12]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég ætla að ítreka þá beiðni sem fram hefur komið hér, að þessum fundi verði slitið vegna þess að það gengur ekki að halda umræðunni svona áfram. Ég heyri að forsendurnar sem menn hafa fyrir ákvörðun meiri hluta atvinnuveganefndar standast ekki skoðun. Ein þeirra er sú að menn séu að beita sambærilegum vinnubrögðum og viðhöfð voru á síðasta kjörtímabili. Þar fara menn algerlega rangt með. Það hefur komið skýrt fram að það ferli var með þeim hætti að menn fylgdu í einu og öllu lögum og fluttu til kosti úr vernd í bið eftir umsagnarferli. Hvers vegna eru kostir fluttir úr vernd í bið? Vegna þess að þá er verið að biðja verkefnisstjórnina að meta umsagnirnar þannig að ekki verði nein pólitísk fingraför. Halda menn ekki að við ráðherrarnir sem komum að þessu, ég, hv. þm. Oddný G. Harðardóttir og hv. þm. Svandís Svavarsdóttir, hefðum ekki haft einhverjar persónulegar skoðanir á því hvað mætti vera hvar? Alveg skulu menn vera vissir um að svo var. En leyfðu menn sér að fara þannig fram að þeir flokkuðu eftir þeim? Nei, (Forseti hringir.) það var nefnilega ekki gert. Það var heldur ekki gert í þinginu þegar málið var í höndum manna eins og Marðar Árnasonar sem leiddi þá umhverfisnefnd. Halda (Forseti hringir.) menn að sá harðsnúni þingmaður hefði ekki viljað hafa hlutina eftir sínu höfði? Aldeilis. En gerðu menn það? (Forseti hringir.) Nei, vegna þess að þeir vildu að hið faglega mat réði.