144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:36]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég verð að segja að mér þætti það lýsa mikilli smekkvísi af hálfu hæstv. forseta að haga dagskrárstjórninni þannig að sú ágæta ræða sem hv. þm. Katrín Jakobsdóttir flutti nú yrði lokaræða umræðunnar. Ég held að þar hafi allt verið dregið fram um ástæður þess að þetta mál á ekki að vera á dagskrá.

Ég er hingað kominn til að gera enn athugasemd við að fulltrúar stjórnarflokkanna haldi því fram að þeir misbeiti dagskrárvaldinu í þinginu í krafti einhvers meiri hluta. Nú gerði það formaður atvinnuveganefndar og það verður að halda því til haga að stjórnarflokkarnir fengu í síðustu alþingiskosningum ekki meiri hluta atkvæða, hvað þá að þeir hafi fengið meirihlutastuðning meðal íslensku þjóðarinnar. Það er alls ekki svo. Og frá kosningunum hefur kvarnast af þeim hátt í helmingurinn af þeim sem þá studdu þá (Forseti hringir.) þannig að þeir tala ekki í nafni neins meiri hluta og fara ekki með neitt meirihlutaumboð í landinu.