145. löggjafarþing — 22. fundur,  19. okt. 2015.

verkföll í heilbrigðiskerfinu.

[15:40]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Það er með þennan blessaða baráttuanda, ég veit ekki betur en að sá sem hér stendur hafi borið hag heilbrigðiskerfisins verulega mikið fyrir brjósti eins og hv. þingmaður sem talaði hér. Raunar erum við tvö ekki einstök í þessum sal, ég hef skilið umræðu síðustu mánaða og síðustu missira á þann veg að alþingismenn beri allir hag heilbrigðiskerfisins fyrir brjósti. Ég tel enga ástæðu til að fara í einhvern mannjöfnuð í þeim efnum. Þetta er hins vegar stórt og mikið verkefni.

Hér hefur ítrekað verið farið yfir það í fyrirspurnum þingmanna til fjármálaráðherra og til heilbrigðisráðherra hvernig betur hefði mátt reyna að forðast þessi verkföll. Ég hef ætíð bent á að það þarf tvo til að semja, nema menn ætli að gefa eftir gagnvart öllum kröfum sem beinast að ríkinu. Það hefur bara ekki verið uppi á borðum hingað til.

Varðandi þá spurningu sem hv. þingmaður kemur fram með um sérgreinalæknana og samningana sem þar eru þá er verið að vinna að tillögum til breytinga á því fyrirkomulagi.