145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

starfsumhverfi lögreglunnar.

[14:22]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að fagna því að þessi umræða er ekki eins og ég bjóst við að hún yrði, að hér yrði fyrst flutt ræða þar sem hinir hörmulegu atburðir sem gerðust í París væru raktir og hafa gerst víðar og síðan kallað eftir því að lögreglan mundi vígbúast og efla alls konar forvirkar rannsóknarheimildir og þar fram eftir götunum á grundvelli þeirra atburða, eins hörmulegir og þeir eru. Þessi umræða er ekki þannig. Það er mikilvægt að löggæslumál séu ekki rædd svona.

Mér finnst mikilvægt að þessi þjóð eins og allar aðrar þjóðir geri sitt eigið mat á þeim ógnum sem blasa við. Ógnirnar eru fjölmargar gagnvart borgurunum. Ísland er mjög gott dæmi um sérstaka ógn sem þjóð hefur þurft að glíma við. Stríð Íslendinga hafa ekki verið háð við aðrar þjóðir heldur við náttúruna sem hefur oft verið grimm og vægðarlaus. Það er fallegt af hæstv. innanríkisráðherra að nefna dæmi af björgunarsveitunum sem eru nákvæmlega sérhönnuð íslensk lausn byggð á sjálfboðavinnu í þessari oft og tíðum ótrúlega erfiðu viðureign.

Mér finnst ástæða til að læra af því sem er vel gert og skoða fleiri svið og hugsa: Hvernig eigum við að glíma við allar þær fjölmörgu ógnir sem blasa við okkur, heimilisofbeldi, skipulögð glæpastarfsemi, hryðjuverkamenn, allt sem mögulega getur steðjað að þjóð? Mér finnst að við eigum að hafa tvennt að leiðarljósi: Við ætlum að vera friðsælt samfélag og búa við frið og öryggi. Löggæsla (Forseti hringir.) á alltaf að verja opið og frjálst samfélag og má ekki vinna gegn því.