145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[10:58]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Tekist hefur um þetta mál á undanförnum sex til sjö árum víðtæk samstaða á vettvangi stjórnmálanna og það er mikilvægt því að það þarf að bæta fjárlagagerð á Íslandi, vanda grunninn og tryggja aukinn aga í ríkisfjármálum. Við í Samfylkingunni höfum gert athugasemdir við að tiltekin fjármálaregla sé lögfest með jafn þröngum viðmiðum og gert er í 7. gr. frumvarpsins og lýstum því yfir í atkvæðagreiðslu við 2. umr. að við teljum okkur ekki bundin af þeirri reglu þegar við setjumst í ríkisstjórn. Það er ekki eðlilegt að ríkisstjórnarmeirihluti á einum tíma leggi pólitísk áhersluatriði sín fram í formi fjármálareglu sem allir eiga að vera bundnir af og við áskiljum okkur rétt til breytinga á henni. Við munum hins vegar greiða atkvæði með frumvarpinu að þessum fyrirvara gefnum.