145. löggjafarþing — 112. fundur,  18. maí 2016.

ungt fólk og staða þess.

[15:44]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Það eru engar getgátur heldur köld staðreynd að ungt fólk sem hópur hefur það verra en aðrar kynslóðir sem þetta land byggja. Tekjur ungs fólks hafa dregist saman samanborið við eldri kynslóðir og unga fólkið hefur ekki notið sömu kaupmáttaraukningar og þeir eldri.

Ungt fólk hefur dregist aftur úr í kjörum á sama tíma og þjóðarbúið stendur vel. Þetta hef ég rætt margoft í þessum sal, nú síðast í gær við hæstv. félagsmálaráðherra í tengslum við fæðingartíðni og fæðingarorlof. Áður hef ég rætt við hæstv. fjármálaráðherra um þessi mál sem og aðra þingmenn auðvitað.

Sum þessara samtala hafa verið ágæt en það veldur mér áhyggjum að jafnvel þingmenn tala um barlóm í þessum efnum eða væl, svo að ég þýði fyrir yngri kynslóðir, og vísa ég þar t.d. í svör hv. þm. Sigríðar Andersen í sjónvarpssal Hringbrautar þar sem við stöllur vorum staddar fyrir skömmu.

En tölurnar ljúga ekki eða kveinka sér. Þær sýna þetta svart á hvítu. Evrópska lífskjararannsóknin leiddi það í ljós að ráðstöfunartekjur 25–29 ára Íslendinga voru minni árið 2014 en tíu árum áður. Hjá öðrum hópum jukust tekjurnar hins vegar.

Greiningardeild Arion banka sýndi nýverið fram á að fólk undir þrítugu hefur setið eftir í kaupmáttaraukningu undanfarinna áratuga. Þeir sem eru undir tvítugu hafa minna milli handanna í dag en árið 1990.

Ari Skúlason. hagfræðingur hjá Landsbankanum, sagði aðspurður í fréttum Stöðvar 2: Ef maður skoðar tölurnar er það þannig að fólk undir þrítugu hefur fengið miklu minni tekjuauka heldur en aðrir og sumir jafnvel bara lækkað í tekjum á síðustu 25 árum. Það er slæmt ef að einstaka kynslóðir hafa það miklu verra en kynslóðirnar á undan.

Virðulegi forseti. Eins og ég segi hef ég áður talað um þessa stöðu hérna en ég tel tilefni til þess að gera það aftur og aftur eins lengi og til þarf til þess að umræðurnar nái eyrum fólks. Það skiptir máli að ungt fólk fái notið afraksturs vinnu sinnar og elju eins og aðrir. Það skiptir máli fyrir samfélagið allt að ungu fólki sem er að mennta sig, stofna fjölskyldu og koma þaki yfir höfuðið á sér og sínum þverri ekki krafturinn. Hagvöxtur Íslands byggist á því, virðulegi forseti.

Þjóðin er að eldast og það er ungt fólk sem við treystum á að beri skattbyrðarnar á komandi áratugum og til þess að tannhjólin snúist öll má ekki sleppa því að smyrja eitt hjólið.

Að mínu mati hefur sitjandi ríkisstjórn gert einmitt það. Hún hefur forgangsraðað í annað en ungt fólk. 80 milljarðar úr ríkissjóði í skuldaniðurfellingu á húsnæðislánum voru ekki fyrir ungt fólk. En skuldir ríkissjóðs sem ekki voru borgaðar á meðan sem því nemur eru geymdar fyrir komandi kynslóðir.

Það var ekki verið að gæta jafnræðis í þeim efnum með því t.d. að fella niður hluta af verðtryggðum námslánum. Það hefði stutt við ungt fólk en ríkisstjórnin forgangsraðaði ekki þannig.

Ungar barnafjölskyldur eru á hættulegum stað. Fæðingarorlofið er þannig að fólk getur ekki nýtt sér það. Feður eru hættir að taka það vegna þess að fjölskyldurnar geta þá ekki staðist ýmsar fjárskuldbindingar á meðan.

Stuðningur við jafnrétti kynjanna er því líka tómt tal hjá þessari ríkisstjórn. Það er ekki í forgangi því að við vitum að til þess að konur og karlar geti raunverulega orðið jafn verðmætir starfskraftar í augum atvinnurekenda þurfa aðstæður að vera þannig í samfélaginu að kynin geti tekið jafnan þátt í uppeldi barna og heimilislífi. Á meðan svo er ekki munum við horfa upp á áframhaldandi launamun kynjanna.

Skuldabyrði ungra barnafjölskyldna er líka mikið áhyggjuefni. Sá hópur sem varð fyrir hvað mestum áhrifum kreppunnar er ungar barnafjölskyldur á aldrinum 25–40 ára. Þetta sýna niðurstöður rannsóknar Ragnheiðar Láru Guðrúnardóttur sem hún gerði fyrir mastersritgerð.

Þessi ríkisstjórn hefur ekki forgangsraðað fyrir barnafjölskyldur. Hvar er almennilegt dagvistunarkerfi handa þessu fólki? Ég skal segja hæstv. fjármálaráðherra það. Það er annars staðar á Norðurlöndunum. Þar eru leikskólar ókeypis, þar getur fólk samþætt vinnu og fjölskyldulíf og þangað er ungt fólk að fara. En hér heima fækkar fæðingum. Fólk hefur ekki efni á að eignast börn og það, virðulegi forseti, á að vera áhyggjuefni fyrir hæstv. fjármálaráðherra.

Ég tek þessa umræðu við hann af því að það er hann sem heldur um pyngjuna og þrátt fyrir mikið tal um að menn vilji hækka fæðingarorlofið og gera hitt og þetta þá er ekkert gert, af því að fólk segir í þessum sal að fjármuni vanti. (Forseti hringir.)

Hæstv. fjármálaráðherra hefur forgangsraðað í skuldaniðurfellingu, hann hefur forgangsraðað í landbúnaðarkerfi. Þar eru til fjármunir. Af hverju forgangsraðar hæstv. ráðherra ekki til ungs fólks? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)