145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

stefna í skattlagningu á bifreiðaeigendur.

[15:04]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mér finnst þetta áhugaverð umræða sömuleiðis, ég held að við verðum nefnilega að horfa á stóru myndina. Ef við ætlum að ráðast í það verkefni að minnka losun gróðurhúsalofttegunda þurfum við að grípa til alvöruaðgerða; alvöruaðgerða sem ríki hafa gripið til, eins og Norðmenn sem ég nefndi áðan, með góðum árangri. Í Hollandi er verið að ræða um að banna sölu bifreiða annarra en raf- og vetnisbíla eða þeirra sem ekki gefa frá sér gróðurhúsalofttegundir. Svo eru átta fylki í Norður-Ameríku sem hafa tekið ákvörðun um að reyna að vera laus við slíkar bifreiðar fyrir árið 2050. Þetta eru alvörumarkmið og ég sakna þess svolítið að við setjumst ekki niður og setjum okkur slík markmið. Ég held að við ættum vel að geta gert það, markað okkur stefnu og unnið eftir henni. Tiltekt í gjöldunum er eitthvað sem hæstv. fjármálaráðherra getur farið í og skoðað en þessi stefnumörkun þarf að eiga sér stað þvert á alla flokka vegna þess að hún verður að halda fram yfir kosningar. Hún verður að halda milli ólíkra ríkisstjórna vegna þess að við þurfum að reyna að halda kúrsi í þessu.

Ég er ekki alveg sammála þeim sem talaði á undan mér, hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni, um að við eigum ekki að láta markaðinn leysa þessi mál að öllu leyti. Ég held að hann eigi að leysa flest þessi vandamál. Hann á til dæmis að leysa hvaða tækni við notum; við eigum ekki að taka ákvörðun um að hér eigi bara að vera rafbílar eða bara svona bílar, markaðurinn hlýtur að sjá um þá hluti. Það er ekki stjórnvalda að taka beinlínis ákvörðun um það. En það er okkar að búa til hvatana með því að segja, eins og Norðmenn hafa gert, að bílar eða ökutæki sem losa ekki gróðurhúsalofttegundir séu skattfrjáls þangað til við höfum náð einhverjum tilteknum árangri. Þá getum við endurskoðað skattumhverfið. Ég held að það sé mjög brýnt að við gerum þetta, að búa til öflugt hvatakerfi í þessu sem er þá gagnsærra og svarar líka kröfum hv. þingmanns sem hóf þessa umræðu.