145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl.

787. mál
[16:00]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir fyrirspurn hans. Fyrst vil ég segja um starfshópinn sem hæstv. ráðherra og ríkisstjórn skipaði, að um leið og við bregðumst við í löggjöfinni til þess að sporna við, eins og það er orðað, og hindra að félög stofni til starfsemi í skattaskjólum til þess að leyna upplýsingum í misjöfnum tilgangi — ég gef mér ekki að það sé í öllum tilvikum þannig — er mikilvægt að vinna með skattrannsóknarstjóra, ríkisskattstjóra og þeim embættum og sérfræðingum sem halda uppi eftirliti og vinnu í tengslum við þessi mál.

Ég minntist á það í ræðu minni að hér hefðu verið keypt gögn sem eru í úrvinnslu hjá þeim embættum að þessum starfshópi er ætlað að vinna með embættunum til þess að komast að því hvert umfang vandans er raunverulega. Hvert eðli vandans er.

Fram hefur komið t.d. í ræðum og riti ríkisskattstjóra að hér séu skattundanskot hartnær 80 milljarðar. Hversu mikið af því tengist starfsemi aflandsfélaga? Hversu mikil eru áhrif af þessari starfsemi á íslenskt hagkerfi? Hversu mikið fer fram hjá skattkerfi okkar til þess að standa undir velferðarkerfi, eins og hv. þingmaður kom mjög vel inn á í ræðu sinni, (Forseti hringir.) sem standa undir rekstri samfélagsins?