145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

virðisaukaskattur.

758. mál
[17:49]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, veltumörk skattskyldu og fjárhæðarmörk uppgjörstímabila. Þetta er frá atvinnuveganefnd. Nefndin hefur fjallað um málið sem hún lagði fram í kjölfar umfjöllunar í nefndinni um frumvarp til laga um breytingu á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald.

Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Samtökum ferðaþjónustunnar og Viðskiptaráði Íslands. Gert er ráð fyrir að skatttekjur ríkissjóðs lækki um allt að 0,5 milljarða verði frumvarpið að lögum en þá hefur ekki verið tekið mið af neikvæðum skilum, þ.e. þegar útskattur er umfram innskatt.

Nefndinni bárust upplýsingar um að álagning aðila með veltu á bilinu 0–1 millj. kr. hefði á árinu 2015 verið neikvæð um 903,4 millj. kr. Að frátöldum aðilum sem hófu rekstur árið 2015 og því e.t.v. þurft að kosta miklu til í byrjun rekstrar væri álagning aðila í þessum flokki neikvæð um 393,5 millj. kr.

Hv. þingmenn Björt Ólafsdóttir og Þórunn Egilsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt og undir það skrifa hv. þingmenn Jón Gunnarsson, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Haraldur Benediktsson, Ásmundur Friðriksson, Kristján L. Möller, Páll Jóhann Pálsson og Þorsteinn Sæmundsson.