145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

ákvarðanir EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

681. mál
[22:45]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef við rifjum upp 2. gr. stjórnarskrárinnar þá segir hún bara að stjórnvöldin eigi að vera íslensk. Alþingi og forseti fari með löggjafarvaldið og forseti með framkvæmdarvaldið og dómarar með dómsvaldið. Af því hefur verið ráðið og gagnályktað að aðrir megi ekki fara með þetta vald í landinu. Svo er til 21. gr. sem heimilar að gerðir séu samningar við erlend ríki. En það hefur verið túlkað þannig að maður geti ekki framselt þetta vald út úr landinu sem samkvæmt 2. gr. er hjá innlendum stjórnvöldum.

Nú er verið að ganga mjög langt í að framselja þetta vald, framkvæmdarvaldið, út úr landinu. Og auðvitað dómsvaldið líka. Svo hanga menn á því að segja: Við erum ekki að framselja löggjafarvaldið, við mundum gera það ef við gengjum í Evrópusambandið.

Ég segi nú bara: Af hverju má framselja vald sem heyrir undir tvo liði af þremur í 2. gr. en ekki þrjá af þremur? Það finnst mér nú bara lögfræðilegur bullugangur. Hér eru menn komnir út yfir þanþolið sem stjórnarskráin leyfir. Það var ítarlega rökstutt af sérfræðingunum árið 1992 af hverju það framsal bryti ekki gegn stjórnarskránni. Röksemdin var sú sem ég rakti hér áðan, að þeir sem urðu fyrir þvingunaraðgerðum þá voru bara þeir sem voru að gera eitthvað á alþjóðlegum vettvangi. Hugmyndin var þá sú að þeir væru að fara á útlendan vettvang og ættu þess vegna að þola útlent vald. Nú erum við að flytja erlent vald inn í landið. Við erum að segja að stofnun sem við stjórnum ekki muni geta tekið bindandi ákvarðanir fyrir innlend eftirlitsstjórnvöld um aðgerðir gagnvart einstökum fjármálafyrirtækjum. Ég sé ekki hvar eitthvert alþjóðlegt „spillerum“ er sem menn vinna innan. Við erum komin algerlega út fyrir þau mörk.