145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

ákvarðanir EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

681. mál
[23:33]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég hef svo sem ekki sérstakan áhuga á að teygja umræður um þetta mál alveg inn í nóttina — og þó, ég ætla seint að biðjast afsökunar á því að nota eitthvert örlítið brot af ræðurétti mínum hér sem alþingismaður á Alþingi Íslendinga þegar grundvallaratriði sem tengjast stjórnarskránni eiga í hlut. Ég hef, eins og ég tók fram í andsvari áðan, fylgst með þessari umræðu og hlustað eftir mörgum ágætum ræðum sem hafa verið fluttar og liðið sífellt verr undir þeim, þ.e. eftir því sem það hefur kristallast í umræðunni í raun og veru óháð afstöðu manna með eða á móti því hvort framsal valds sé tækt innan ramma stjórnarskrárinnar, þá verð ég að segja alveg eins og er að ónotatilfinningin verður sífellt sterkari.

Fyrst aðeins um þá yfirlýsingu sem ég skil að meiningin sé að leggja fram um leið og EES-nefndin sameiginlega fundar. Þá erum við að afgreiða málið í fullkominni óvissu um hvort það verði látið gott heita og kyrrt liggja af hálfu gagnaðilanna eða hvort því verður mótmælt. Ég heyrði ekki hvort það komu skýr svör við því hvað ef, hvað ef aðrir segja eitthvað eins og: Þetta gengur ekki, við tökum ekkert mark á þessari yfirlýsingu, hún hefur ekkert gildi? Ætla menn þá að koma með málið hingað aftur? Hvernig er það hugsað? Hvað ætla menn þá að gera? Mundu menn segja: Sleppum þá bara þessari yfirlýsingu og gerum þetta samt? Hún er greinilega einhver viðleitni hér, sem ég tek alveg gilda, til þess að mönnum líði aðeins betur með þetta mál, þeir hafi þá alla vega ekki beinlínis misst frá sér neyðarréttinn.

Annars verð ég líka að segja að ég er mjög undrandi yfir því hvernig stendur á því að við skulum vera í þessari stöðu með þetta mál núna, því að það á sér langan aðdraganda. Það er langt síðan Evrópusambandið lagði af stað með að smíða þessar stofnanir í kjölfar fjármálakreppunnar 2008/2009 og 2012 var afurð komin á borðið sem allir voru sammála um að við gætum engan veginn tekið inn í stjórnarskrá okkar eins og hún leit út, þ.e. að hið yfirþjóðlega vald nýju stofnananna gengi beint inn yfir okkur. Það sem maður staldraði sérstaklega við á þeim tíma var auðvitað sú staðreynd að þetta átti að hafa bein réttaráhrif gagnvart lögaðilum og öðrum slíkum í landinu.

Þá fara menn og smíða þessa tveggja stoða lausn, fara í gegnum stofnanakerfi Evrópska efnahagssvæðisins og telja sig hafa sloppið með málið. Engu að síður er það þannig, eins og hér kemur fram, að þetta er langvíðtækasta og mest íþyngjandi valdaafsal sem við höfum nokkurn tímann staðið fyrir í þessum efnum. Ég held að það sé algerlega hafið yfir vafa. Til sannindamerkis um það er upplýst að Norðmenn noti þau ákvæði sinnar stjórnarskrár sem eiga við um meiri háttar framsal á valdi frá landinu, þ.e. að Stórþingið þarf að samþykkja með auknum meiri hluta, 2/3 eða hvað það nú er, (ÖS: 3/4.) 3/4, já, þess þá heldur. Samt ætla menn að reyna að láta sig hafa þetta.

Okkur er boðið upp á lögskýringar sem eru sóttar í umsögn stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Hvað birtist okkur þá? Nefndin er þverklofin í málinu. Látum það nú vera ef stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefði komist að sameiginlegri niðurstöðu sem sú nefnd sem utanríkismálanefnd ákvað að styðjast við, en það er hún aldeilis ekki. Hv. þm. Birgir Ármannsson var frekar loðinn í svörum þegar ég spurði: Hvað þýða sumir og aðrir? Hvaða hlutföll eru það? Er nefndin alveg þverklofin eða eru þetta tveir á móti sjö, eða fjórir á móti fimm? Hvernig er þetta? Það verður að spyrja þessara spurninga, herra forseti. Við skulum ekkert vera að tala um þetta öðruvísi en það er. Svona er uppleggið sem þingmönnum er ætlað að styðja sig við þegar á að fara að taka afstöðu til þessa.

Eins og hefur komið fram hjá fleiri ræðumönnum hefur okkur sem höfum fylgst með þessu allan tímann, frá 1992, 1993, smátt og smátt verið það ljóst að þar fór af stað þróun byggð á umdeildum grundvelli, svo vægt sé nú til orða tekið, því að það var ekki eins og það væri aldeilis samstaða um það á Alþingi eða allir á eitt sáttir um að EES-samningurinn gengi upp samkvæmt stjórnarskránni. Það var heldur ekki meðal fræðimanna, eins og kunnugt er. En þá voru rök fjórmenninganna að þetta væri vel afmarkað og takmarkað og allt það, í þeirri umferð. En síðan líður tíminn og það bætist og bætist í og það bætist í og það safnast upp. Ég hef stundum spurt og má spyrja í tengslum við þetta mál, ef það verður komið í viðbót: Dettur einhverjum í hug að menn hefðu komist að þeirri niðurstöðu 1993, ef allt þetta framsal hefði verið komið saman í einn pakka, að það stæðist stjórnarskrána? Nei. Ég held að það sé alveg augljóst að miðað við það sem menn byggðu á þá hefðu menn sagt nei á þeim tíma. Þá hlýtur það að vera nei í dag. Þá hljótum við að vera komin niður af vaðinu og niður í iðandi strenginn. Það er frekar ónotaleg tilfinning.

Ég skil ekki af hverju menn lögðu ekki vinnu í það á þessu kjörtímabili að undirbúa breytingar á stjórnarskránni þannig að nauðsynlegt framsal til stofnana sem við eigum aðild að, eins og í gegnum EES-samninginn, væri mögulegt með t.d. 3/4 meiri hluta atkvæða Alþingis á bak við sig. Nei, það er ekki þannig, herra forseti. Það er upplýst af nefndarmanni í stjórnarskrárnefnd, sem skilar nefndaráliti 1. minni hluta, að það strandaði á stjórnarflokkunum sjálfum og fulltrúum þeirra. Það voru þeir sem drápu það alveg sérstaklega og reyndar eyðilögðu allt stjórnarskrármálið. En alveg sérstaklega vildu þeir ekki að svona ákvæði væri klárað. Það hlýtur maður að gagnrýna. Þetta er sem sagt heimatilbúinn vandi, svefnleysi hv. þm. Birgis Ármannssonar, ef það skyldi nú koma til út af þessu, sem ég útiloka ekki, svona lesandi í svipbrigði hans. Það eru þá heimasmíðuð vandræði hjá stjórnarflokkunum að kvelja sína þingmenn til að standa að afgreiðslu þessa máls á svona óhreinum forsendum. Þeir geta engum nema sjálfum sér um kennt.

Það hefur ekki strandað á stjórnarandstöðunni, a.m.k. ekki á fulltrúa Vinstri grænna í þeirri vinnu, því að við höfum alltaf haft það með að þetta væri eitt af þeim ákvæðum sem aðstæðurnar hafa fært okkur í hendur og við þurfum að takast á við. Ég hef ekki skilið hvers vegna ekki var vilji til þess að ljúka þessu verki. Ég hélt satt best að segja að menn hefðu fengið alveg nóg af umræðum um þetta á síðasta kjörtímabili þegar sumir sömu mennirnir og nú ætla að láta sig hafa þetta æstu sig hér upp í rjáfur út af miklu afmarkaðra framsali sem tengdist einhverju þröngu á sviði umhverfismálanna. Þá ætluðu menn upp úr þakinu út af því hversu glannalegt þetta væri gagnvart stjórnarskránni. En nú má framselja heilmikið vald og íþyngjandi vald gagnvart innlendum lögaðilum á sviði fjármálamarkaðar eins og ekkert sé, að vísu í gegnum stofnun sem við eigum aðild að og höfum viss áhrif á en ráðum ekkert endilega niðurstöðunni hjá, getum lent þar í minni hluta og hvað er þá orðið um neitunarvald okkar og annað í þeim efnum?

EES-samningurinn að þessu leyti hefur orðið einhver undarlegur farvegur sem smátt og smátt býr til framsal sem er verra en samningurinn sjálfur. Það er nefnilega þannig, vegna þess að hann og hverja einustu gerð sem honum fylgir afgreiðum við þá sjálf að nafninu til, getum alltaf sagt nei. Ekki satt? Það hefur afleiðingar og það má beita okkur viðurlögum eða jafnvel henda okkur út, en við getum sagt nei þar. En hér á að færa erlendum aðilum yfirþjóðlegt vald sem getur með íþyngjandi hætti bitnað á innlendum lögaðilum t.d., fyrirvaralaust eða fyrirvaralítið án þess að við getum nokkra rönd reist við. Það held ég að sé orðin alveg gríðarleg ófæra í þessum efnum.

Eins og væntanlega ráða má af máli mínu, virðulegur forseti, þá reikna ég ekki með því að treysta mér til að standa að þessu máli, í öllu falli sitja hjá við þá atkvæðagreiðslu, sem er mjög í tísku um þessar mundir eins og kunnugt er og rætt í þjóðfélaginu ef menn sitja hjá. En ég mun þó færa þau rök fyrir því að ég geri mér fulla grein fyrir því að við erum í miklum vanda með þetta mál. Það mundi hafa stórfelldar afleiðingar ef við eyðilegðum það til einhverrar frambúðar að EFTA-ríkin eða EES-ríkin gætu innleitt þetta hjá sér, við áttum okkur alveg á því. En mér finnst að menn hafi notað tímann illa og unnið heimavinnuna sína illa. Svo er upplýst að utanríkismálanefnd hafi í lokin fengið örfáa daga eftir að hún var komin með álit hinnar klofnu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í hendur til að ljúka vinnunni að sínu leyti. Þetta er ekkert mjög notalegt er það, herra forseti? Ekki finnst mér það.