145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl.

787. mál
[15:33]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það mál sem hér um ræðir kom inn í þingið í maímánuði sl. í kjölfar umfjöllunar um Panama-skjölin í þingsal og í fjölmiðlum. Það var samhljómur í máli hv. þingmanna í maímánuði um að mjög jákvætt væri að fá þetta frumvarp fram en hins vegar var það líka mat allmargra hv. þingmanna sem þá töluðu, þegar við rifjum upp þá umræðu, að þarna mætti gera meira og gera betur. Á þessum tímapunkti hafði hv. efnahags- og viðskiptanefnd haldið tvo fundi með þeim aðilum sem fyrst og fremst þekkja til þessa heims, skattundanskota og skattsvika, og 1. umr. þessa máls bar vott um að við lögðum, a.m.k. mörg hver, áherslu á það að þær upplýsingar mundu skila sér inn í málið.

Nú kemur málið verulega breytt fram eins og kom fram í máli hv. þm. Willums Þórs Þórssonar, sem mælti fyrir nefndaráliti frá efnahags- og viðskiptanefnd. Þó að við höfum öll okkar skoðanir á því hversu langt eigi að ganga tel ég mikilvægt að þingið nái saman um tillögur í þessum málum. Ég held að við höfum öll lagt á það mikla áherslu að ná saman um þær aðgerðir sem hér eru lagðar til og það finnst mér mjög mikilvægt. Innan nefndarinnar hefur mikið verið unnið til þess að ná samstöðu um þetta mál eins og raunar ýmis önnur. Ég vil sérstaklega nefna þátt hv. þm. Frosta Sigurjónssonar, formanns efnahags- og viðskiptanefndar, í því sambandi.

Hv. þm. Willum Þór Þórsson fór yfir þær breytingar sem eru lagðar til. Ég vil aðeins fara yfir það sem ég lagði mesta áherslu á í þessari vinnu. Mér fannst mjög mikilvægt að þetta tækifæri væri nýtt til þess að taka á svokallaðri þunnri eiginfjármögnun. Ég hef verið með frumvarp í þinginu frá árinu 2013 um það mál. Það var á sínum tíma, á árinu 2014, tekið til meðferðar í hv. efnahags- og viðskiptanefnd og þar var lagt til að málinu yrði vísað til ríkisstjórnarinnar. Nefndin lýsti sig efnislega sammála málinu. Ég varð fyrir talsverðum vonbrigðum þegar leið á árið 2015, að ekkert skyldi unnið með þetta álit nefndarinnar. Ég spurði hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra nokkrum sinnum eftir þessu í þinginu og fékk yfirleitt þau svör að beðið væri eftir einhverri þróun erlendis. Það varð því mín niðurstaða, þegar þetta frumvarp kom fram hér í vor, að rétt væri að leggja fram frumvarpið um þunna eiginfjármögnun endurskoðað. Niðurstaðan varð sú að fjármálaráðuneytið lagði til okkar minnisblað um það hvernig mætti þætta aðgerðir gegn þunnri eiginfjármögnun inn í þetta frumvarp. Í 5. lið breytingartillagnanna segir:

„Á eftir 57. gr. a laganna kemur ný grein, 57. gr. b, ásamt fyrirsögn svohljóðandi: Takmörkun á frádrætti vaxtagjalda.“

Þarna eru teknar upp tillögurnar sem finna má í frumvarpinu sem ég lagði fram en eiga sinn uppruna í tillögum frá starfshópi sem starfaði á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins og skilaði af sér veturinn 2012–2013, ég man ekki nákvæmlega hvenær það var, það fennir í þessi spor. Þarna eru teknar upp sömu hugmyndir og það eru þær sem snúast um það að frádráttur vaxtagjalda og affalla vegna lánaviðskipta við tengda aðila, sem eru skilgreindir, miðist við 30% af hagnaði skattaðilans og þau vaxtagjöld og afföll sem umfram eru komi ekki til frádráttar.

Eins og hv. þingmenn þekkja, og flestum er líklega orðið vel kunnugt eftir umfjöllun í fjölmiðlum, snýst þetta um það þegar um er að ræða tengda aðila þar sem annar er með bækistöðvar í öðru landi en Íslandi og nýtur þar lægri skattgreiðslna en hér á landi og aðilinn sem er staddur hér á landi færir hagnað sinn, sem verður til hér á landi, úr landi sem lánveitingar til þess aðila. Um þetta hefur töluvert verið fjallað, t.d. í kringum málefni tiltekinna álfyrirtækja sem eru hluti af fjölþjóðlegum fyrirtækjum. En þetta mál snýst ekki bara um þau. Það væri áhugavert að fá fram upplýsingar um það á hvaða aðila þetta kynni að hafa áhrif en auðvitað hefur þetta áhrif á allar samstæður þar sem tengdir aðilar eru með höfuðstöðvar í öðru landi og geta nýtt sér önnur skattkjör en eru í boði hér. Við höfum séð að önnur ríki hafa í vaxandi mæli verið að taka upp slíkar reglur. Ég man til dæmis að þegar ég setti þetta fram fyrst á þinginu, 2013, voru Bretar að taka upp slíkar reglur af því að þeir höfðu verið illa leiknir af slíkum alþjóðlegum stórfyrirtækjum. Ég man sérstaklega eftir máli sem tengdist Starbucks á þeim tíma en mörg fleiri mál hafa komið upp.

Það hefur líka komið fram að með þeim breytingartillögum sem við gerum og ég vildi nefna sérstaklega leggjum við til talsverðar breytingar hvað varðar fyrningu sakar skattaðila í lágskattaríkjum, og leggjum til að vísað verði til tekna og eigna í lágskattaríkjum til að skýra að ákvæðið eigi ekki bara við um skattaðila með heimilisfesti í lágskattaríkjunum; þarna eru ákveðnar skýringar sem við teljum að skýri þetta betur, því að þetta var eitt af þeim málum sem töluvert var rætt um. Það var líka talsvert rætt um að tiltekin ákvæði laganna um lágskattaríki eigi því aðeins við að sýnt sé að skattlagning sé sambærileg og hér á landi sem gengur gegn öðrum skilgreiningum sem finna má í 2. mgr. 57. gr. a laga um tekjuskatt og því leggjum við til að það falli brott líka.

Við setjum hér inn breytingar sem tengjast ríki-fyrir-ríki skýrslu um skattskil sem tengist okkar alþjóðlega samstarfi innan OECD og leggjum til að það verði mælt fyrir um skil á þessum ríki-fyrir-ríki skýrslum í lögum um tekjuskatt. Skyldan tekur til fjölþjóðlegra fyrirtækjasamstæðna sem hafa meira en 100 milljarða kr. tekjur og þá hvílir á móðurfélagi heildarsamstæðu að skila skýrslunni en íslenskur skattaðili skal þó skila henni þótt móðurfélagið sé erlent ef móðurfélaginu er ekki skylt að skila slíkri skýrslu samkvæmt þeim reglum sem gilda í því ríki eða íslensk stjórnvöld hafa ekki sjálfkrafa aðgang að slíkri skýrslu á grundvelli upplýsingaskiptasamninga.

Þetta er gríðarlega mikilvæg grein sem kemur hér inn.

Í nefndarálitinu er síðan unnið talsvert með það hvernig eigi að skilgreina fasta starfsstöð og þar er töluvert langur texti um það hvernig eigi að skilgreina það. Þar hefur verið litið í framkvæmd til skilgreiningar á hugtakinu, með leyfi forseta, „permanent establishment“ eins og það er skilgreint í tvísköttunarsamningsfyrirmyndinni hjá OECD sem við byggjum töluvert á. Við leggjum til að sú skilgreining sem er í því skapalóni, ef svo mætti að orði komast, verði lögfest. Hér eru nokkrar breytingar lagðar til fram til skýringa.

Það sem er kannski mikilvægast að mínu viti er hin stóra breyting um þunna eiginfjármögnun eða takmörkun á frádrætti vaxtagjalda. Mér finnst það kannski stærsta efnisbreytingin. Síðan eru ákveðnar breytingar eins og þessi sem ég nefndi áðan, um ríki-fyrir-ríki skýrslu um skattskil, sem ég tel að sé mikilvægur hluti af alþjóðlegu samstarfi okkar í þessum efnum.

Þá kem ég kannski að stóru línunum í þessum málum. Um þær er það að segja að eins og ég nefndi í upphafi tel ég að nefndin hafi farið ágætlega yfir málið og allt það sem lýtur að skattframkvæmd tel ég til bóta. Hér eru raunar aðrar breytingar sem lúta ekkert sérstaklega að skattrannsóknum og það eru þær breytingartillögur sem lagðar eru til sem tengjast embætti tollstjóra. Þar leggur nefndin til, að tillögu fjármála- og efnahagsráðuneytis, að tekin verði upp svokölluð VRA-vottun sem fylgir sérstakt hagræði við tollafgreiðslu og -eftirlit. Þetta er ekki mál sem er beintengt skattundanskotum en lýtur að auknu eftirliti tollstjóra með inn- og útflutningi viðurkenndra rekstraraðila.

Niðurstaða nefndarinnar var hins vegar að í þeim tillögum sem komu frá ráðuneytinu hvað þetta varðar væru of víðtækar heimildir til tollyfirvalda um vinnslu persónuupplýsinga. Nefndin leggur því til að 17., 18. og 21. gr. frumvarpsins falli brott, starfshópi verði falið að móta tillögur um heimildir tollyfirvalda til vinnslu persónuupplýsinga og að áður en þær reglur verði mótaðar fari fram, getum við sagt, hagsmunamat þar sem metnir verði almannahagsmunirnir sem felast í því að tollstjóri hafi skýrar heimildir til öflunar upplýsinga en líka er mikilvægt að gæta þar að persónuverndarsjónarmiðum í ljósi þess að þær tillögur sem þarna komu fram voru afar víðtækar og það er mjög mikilvægt að löggjafinn gangi fram af meðalhófi þegar um er að ræða heimildir til að afla upplýsinga um borgarana.

Ég verð að segja það fyrir mína parta að allar þessar greinar tengjast ekki beint skatteftirliti eða skattundanskotum en ég lét sannfærast um að málið væri gott í sjálfu sér og í lagi að taka það á þennan hátt inn í þetta upprunalega mál um skattundanskotin þó að það sé efnislega óskylt. Ég mun standa með því, sérstaklega í ljósi þess að nefndin náði samstöðu um þetta bráðabirgðaákvæði þar sem þessum hópi verður falið að skilgreina þessar heimildir til upplýsingaöflunar. Mér finnst við á Alþingi stundum ansi fljót að leggja til ýmsar slíkar heimildir, sem oft geta verið æðivíðtækar og æðiopnar, samkvæmt orðanna hljóðan í lögunum, og það er mikilvægt að við temjum okkur þau vinnubrögð að alvörumat fari fram á þeim hagsmunum sem ég nefndi áðan. Við treystum þá bara á vinnu þessa hóps. Það varð niðurstaðan að setja þetta í bráðabirgðaákvæði en ekki einungis í nefndarálit og við lítum svo á að þá komi eitthvað skýrt fram frá þessum hópi um það hvernig skuli skilgreina slíkar heimildir. Ég held að það sé öllum til hagsbóta, ekki bara almenningi í landinu, sem er þá þolandi þessarar heimildar ef svo má að orði komast, heldur líka þeim stofnunum sem eiga að fara með slíkt eftirlit.

Ég vil nefna í þessu samhengi að umræða fór fram í nefndinni um það í framhaldinu, og það er kannski eitthvað sem bíður nýs þings, að mikilvægt sé að móta reglur um það almennt hvernig hið opinbera aflar slíkra upplýsinga og hvaða upplýsingar má samkeyra í þeim efnum og hvaða upplýsingar ekki og hvernig farið er með ólíka gagnagrunna á vegum ríkisins. Ég er mjög fylgjandi því að slík umræða verði tekin.

Ég vil að lokum fara aðeins yfir stóru línurnar í þessu máli. Hér er margt lagt til sem ég tel til bóta. Ég tel þó ekki að við séum komin á endastöð hvað varðar aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum. Eitt af því sem hefur komið fram er að það er mjög erfitt að meta umfang skattsvika. Á það hefur verið lagt mat af hálfu ríkisskattstjóra að skattundanskot á hverju ári geti numið 80 milljörðum kr. sem er risavaxin fjárhæð, meira en t.d. útgjöld mennta- og menningarmálaráðuneytisins á hverju ári, svo að ég taki bara eitt dæmi.

Aðeins hluti þessara undanskota snýr að skattaskjólum en við höfum heldur ekki neinar skýrar upplýsingar um það hve stór hluti tengist skattaskjólum. Við höfum séð annars konar mat, t.d. í nýlegri fræðigrein í Nordic Tax Journal, þar sem þessar fjárhæðir eru taldar umtalsvert hærri en 80 milljarðar. Ég tel að þó að þær aðgerðir sem hér eru lagðar til séu til bóta séum við ekki komin á endastöð í þessu máli. Þó að við setjum niður þessar heimildir megum við ekki gleyma því að mjög mikil þörf er á því að styrkja þær stofnanir ríkisins sem fara með skatteftirlit. Ég vil nefna ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra, en ég tel að fjárfesting í þessum stofnunum muni skila sér margfalt í auknum tekjum til samfélagsins.

Ég tel að Alþingi eigi að taka mjög afgerandi afstöðu gegn skattundanskotum. Ég vænti þess að þetta mál verði samþykkt þegar það kemur til afgreiðslu. Ég vænti þess að Alþingi muni áfram sýna frumkvæði í því að taka á því þjóðarmeini sem skattundanskot eru. Við eigum að gera það, t.d. með því að fjárfesta í eftirlitsstofnunum okkar, sem stundum er talað háðuglega um á þingi sem einhvers konar eftirlitsiðnað. Þær snúast um að við spilum öll á sama leikvelli og fylgjum sömu reglum og skilum okkar til samfélagsins. Það er áhyggjuefni þegar við sjáum vísbendingar um að hið svarta hagkerfi sé jafnvel að vaxa. Ég var á ágætum fundi hjá Samtökum iðnaðarins um daginn þar sem rætt var um það framtak sem farið var í í tíð síðustu ríkisstjórnar, sem miðaði að því að virðisaukaskattur af vinnu við framkvæmdir og viðhald á íbúðarhúsnæði yrði að fullu endurgreiddur í stað 60% eins og nú er. Það var mat þeirra sem þar töluðu, á vegum Samtaka iðnaðarins, að þetta hafi skipt miklu máli við það að koma í veg fyrir skattundanskot og það var þeirra tillaga að þetta yrði tekið upp að nýju. Mér fannst þetta áhugavert að heyra og tel að endurgreiðslan hafi skapað mikinn hvata til að forðast svarta atvinnustarfsemi, þ.e. að neytendur taki þau mál í sínar hendur.

Ég held að við eigum að horfa til þess að að loknum þessum kosningum fari stjórnvöld og Alþingi í markvissa vinnu í þessum efnum í samstarfi við verkalýðshreyfinguna og í samstarfi við atvinnurekendur og geri markvisst átak í því að vinna á því þjóðarmeini sem skattundanskot eru. Þó að þessar aðgerðir séu til bóta, eins og ég sagði áðan, verður ekki unnið að þessu nema við styrkjum þessar stofnanir og fáum alla í lið með okkur til að berjast gegn þessu. Umræðan um umfang skattundanskota er ekki góð fyrir neinn, hvorki launþega í þessu landi, sem flestir standa skil á sínu, né atvinnulífið. Við eigum að stefna sameinuð að þessu markmiði og til þess að það náist, og það er kannski síðasta atriðið sem ég vil nefna, þá er gagnsæi lykilatriði í skattapólitíkinni.

Raunar er það svo, þegar maður fylgist með alþjóðlegri umræðu um skattamál — og við erum allt of oft að ræða um tekjuöflun ríkisins, hvort hún sé nægjanleg fyrir þeim verkefnum sem við viljum ráðast í — að skattkerfið og skattapólitík snýst um miklu meira. Hún snýst um jöfnun á kjörum, jöfnun á tekjum, jöfnun á eignum og eitt af því sem við sjáum núna er að misskiptingin er að verða miklu meiri þegar kemur að eignastöðu en þegar kemur að tekjum. Við eigum að ræða það, ræddum það raunar aðeins í gær, ég og hæstv. ráðherra, hvort ekki eigi að nýta skattkerfið til að draga úr þeirri misskiptingu. Hann var reyndar á þeirri skoðun að það ætti ekki að gera það en um þetta snúast hinar pólitísku línur og tekist er á um þetta úti í heimi líka. Við eigum að ræða þetta gagnsæi líka því að við erum með kerfi þar sem fjármagnið flæðir á milli landa. Við erum hluti af EES-samningnum og hluti af því er ekki bara frjáls för fólks heldur líka fjármagns og við vitum að það hefur verið nýtt í ákveðnum tilgangi og það er af þeim sökum sem margar Evrópuþjóðir eru nú í samtölum, a.m.k. 11 Evrópuþjóðir eru búnar að ná samkomulagi um að rétt sé að setja ákveðinn skatt, lága skattprósentu, á flutning fjármagns milli landa. Þetta virðist hins vegar stoppa innan Evrópusambandsins, það næst ekki full samstaða um þetta mál þó að 11 þjóðir vilji gera þetta, en þetta er eitt af því sem við munum þurfa að takast á við á næstu árum, þ.e. sú staðreynd að við þurfum að horfa til skattbreytinga í alþjóðlegu samhengi í miklu meira mæli. Talsvert hefur verið rætt um það að gerðir hafi verið upplýsingaskiptasamningar og það er alveg rétt, mikið átak í þeim efnum hófst á síðasta kjörtímabili og því hefur vissulega verið haldið áfram á þessu kjörtímabili. Við erum aðilar að samstarfi OECD-ríkjanna um BEPS-áætlunina svokölluðu en það er mín sýn á þetta — nú hef ég ekki lengri tíma, herra forseti, til að ræða þessi mál — að við munum þurfa að takast á við og ræða hér miklu meira alþjóðlegt samstarf þegar kemur að skattlagningu og þar mun gagnsæið þurfa að vera meira. Eins og bent hefur verið á, af hinum ágæta franska hagfræðingi Thomas Piketty, er bankaleynd bara ein aðferð fyrir mjög ríkt fólk til að velja sér eigin skattprósentu. Það er umhugsunarefni hvernig við komumst fram hjá því þegar við ræðum skattlagningu milli landa.