Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 255. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1383  —  255. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

Frá 2. minni hluta viðskiptanefndar.



    Frumvarp ríkisstjórnarinnar til laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta er til marks um að ríkisstjórn Íslands og stjórnarmeirihlutinn á Alþingi hafa hvorki dregið nokkurn lærdóm af Icesave-málinu né af því sem fram kemur í 17. kafla skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, þar sem fjallað er um Tryggingasjóð innstæðueigenda og fjárfesta og ábyrgð á innlánum almennt.
    Óþarft er að rekja sögu Icesave-málsins, hana þekkja allir. Þau vandamál sem Íslendingar standa frammi fyrir í Icesave-málinu má rekja til gallaðrar tilskipunar Evrópusambandsins, tilskipun 94/19/EB, sem Íslendingar innleiddu í landsrétt sinn vegna aðildar sinnar að Evrópska efnahagssvæðinu. Innstæðutryggingarkerfi hefur þann tilgang að verja innstæður fólks í tilviki tilskipunarinnar upp að allt að 20 þús. evrum fyrir hvern innlánsreikning ef fjármálafyrirtæki fellur. Evrópusambandið, Bretar og Hollendingar hafa haldið því fram að ríkið beri ábyrgð á skuldbindingum innstæðutryggingasjóða. Í kjölfar bankakreppunnar hefur Evrópusambandið samið nýja tilskipun, þ.e. tilskipun frá 11. mars 2009, um breytingu á tilskipuninni frá 1994. Helstu breytingar frá fyrri tilskipun er að nú er kveðið á um að ríki skuli tryggja að vernd sérhvers innstæðueiganda nemi 50.000 evrum (e. shall ensure that the coverage for the aggregate deposits of each depositor shall be at least EUR 50.000). Í eldri tilskipun var ekki kveðið eins sterkt að orði þar sem mælt var fyrir um að áskilið væri að innstæðutryggingakerfi veittu innstæðueiganda vernd allt að 20.000 evrum (e. deposit-guarantee schemes shall stipulate that the aggregate deposits of each depositor must be covered up to ECU 20 000).
    Ekki virðast vera skýringar á þessu breytta orðalagi nýju tilskipunarinnar. Meiri hluti nefndarinnar telur að túlka beri frumvarpið með þeim hætti að ríkisvaldið verði að tryggja fjármögnun innstæðutryggingasjóðs ef hann þarf að taka lán til að geta staðið við skuldbindingar sínar. 2. minni hluti telur þessa túlkun jafngilda því að um ríkisábyrgð sé að ræða. Tilskipunin gerir einnig ráð fyrir að verndin hækki í 50.000 evrur úr 20.000 evrum og ætlun Evrópusambandsins er að hækka fjárhæðina upp í 100.000 evrur og hefur verið tekið tillit til þeirrar hækkunar í breytingartillögum meiri hlutans við frumvarpið. Einnig er hert á útgreiðsluskilmálum og iðgjaldið fjármálafyrirtækja í sjóðinn hækkað.
    Þetta fyrirkomulag er fullkomlega óásættanlegt fyrir Íslendinga. Færa má rök fyrir því að jafnvel í stærstu löndum Evrópu nái innstæðutryggingakerfið ekki tilgangi sínum, eins og kom í ljós í Bretlandi, Írlandi og Þýskalandi. Það kom líka fram við umræður um málið í nefndinni að ekkert innstæðutryggingakerfi þolir fall stærsta fjármálafyrirtækis síns.
    Það er fullkomlega útilokað að innstæðutryggingakerfið eins og það er hugsað í frumvarpinu geti veitt innlánseigendum þá vernd sem er lagt upp með. Fram kemur í gögnum með frumvarpinu að það tekur sjóðinn 96 ár að safna fjármunum til að mæta falli stærsta viðskiptabankans ef ekkert annað kemur til. Þó skal tekið fram að kröfur sjóðsins vegna útgreiðslu innstæðna njóta forgangs við fall banka. Við umfjöllun nefndarinnar kom ítrekað fram að almenna reglan við fjármögnun íslenskra banka í nútíð og framtíð mun verða með þeim hætti að fjármögnunin verði tryggð með veði sem hafi forgang fram yfir innstæðutryggingasjóð. Í umfjöllun nefndarinnar kom fram að nýtt innstæðutryggingakerfi gæti ekki varið annað í nánustu framtíð.
    Markmiðið hlýtur að vera að vinna okkur út úr þeirri almennu ríkisábyrgð á innstæðum á Íslandi sem ríkisstjórnin hefur lýst yfir. Að framansögðu er ljóst að samþykkt þessa frumvarps mun framlengja ríkisábyrgð um ókomna tíð, þó að hún takmarki fjárhæðina við 16 milljónir kr. á hvern innlánsreikning. Ríkisstjórnin verður í samvinnu við þingið að hafa frumkvæði að samvinnu við Evrópusambandið eða önnur lönd um aðra lausn á þessu máli.

Alþingi, 15. júní 2010.



Guðlaugur Þór Þórðarson,


frsm.


Eygló Harðardóttir.


Sigurður Kári Kristjánsson.