Smíði skuttogara fyrir Marokkó
Miðvikudaginn 19. október 1988

     Albert Guðmundsson:
    Virðulegur forseti. Ég hef í gegnum árin hér lært eitt og þó ekki enn skilið fullkomlega að þegar ráðherrar fara úr embætti finna þeir einhverja hvöt hjá sér til að elta þá ráðherra sem koma í staðinn. Og ráðherrar sem koma inn í embætti finna sér einhverja fróun í því að kynna fyrir alþjóð hvað þeir taka við slæmu búi.
    Ég hef ekki gert þetta að minni iðju, hvorki við þann fjmrh. sem ég tók við af né heldur þann iðnrh. sem ég tók við af. Ég held að það sé svo mikið gott í öllum mönnum að ég veit ekki til þess að neinn ráðherra hafi komið í embætti með annan ásetning en að láta gott af sér leiða, hvort sem þeim hefur tekist vel eða illa. En ég hef orðið var við það að ég gat notað margt af því sem ég tók við hjá báðum ráðherrum, fjmrh. og iðnrh., þó að þeir séu úr andstæðum stjórnmálaflokki við mig.
    Ég vil segja það eitt að ég sé enga ástæðu til þess að fyrrv. hæstv. iðnrh. Hjörleifur Guttormsson taki þannig til orða að allir undirstöðuatvinnuvegir þjóðfélagsins séu í strandi eftir fyrrv. stjórn. Það gæti alveg eins verið eftir fyrrv. stjórnir. Þá fer maður að hugsa: Hvaða flokkar hafa farið lengst með völd? Hvaða flokkar eiga þá mestan þátt í því að iðnaðurinn eða undirstöðuatvinnuvegurinn er í þessu algera strandi sem hann lýsti? Ég held að samfelld stjórnarseta Framsfl., samstarfsflokks Alþb. nú, sé farin að nálgast 20 ár svo að ég vil segja að meira beinir hann spjóti sínu að samstarfsráðherrum, að samstarfsflokki, heldur en þeim flokki sem hann nafngreindi og ég ætla ekkert að fara að verja hér. Sjálft hefur Alþb. verið bróðurpartinn af síðustu 10 árum í ríkisstjórn. Þeir voru í ríkisstjórn frá 1979 til 1983. Um mitt ár 1983 komu nýir herrar og þeir eru komnir í ríkisstjórn aftur. Það þýðir ekkert fyrir Alþb. að ætla að telja mér trú um, eftir 16--17 ára setu á Alþingi, að þeir séu hæfari og útkoman úr þeirra stjórnartímabili fyrir undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar verði betri en með Sjálfstfl. í stjórn. Ég trúi því ekki. En það getur ýmislegt skeð.
    Ég ætla ekki að fara að tala hér um íslenskan iðnað almennt eins og komið hefur fram hjá flestum ræðumönnum vegna þess að almennt á þann hátt sem rætt hefur verið um hér í dag var íslenskur iðnaður ekki á dagskrá. Það var ekki dagskrármálið. Heldur er um að ræða ákveðin þáttaskil sem enn einu sinni er verið að reyna að koma á í íslensku þjóðfélagi. Það er að íslenskur hugur og íslenskt hugvit og íslenskt skólakerfi --- þá á ég við Háskólann --- útskrifi ekki bara heildsala, ekki bara innflytjendur á vörum, ekki bara útflytjendur annarra þjóða, heldur líka útflytjendur frá Íslandi til annarra þjóða, og ekki bara á framleiðsluvöru heldur líka á þekkingu. Því íslenskir verkfræðingar og íslenskir hugvitsmenn búa yfir gríðarlegri þekkingu og mjög góðu skólakerfi sem er útflutningsvara ef rétt er á haldið. Þetta er mín niðurstaða eftir mjög náið samstarf við íslenska vísindamenn á ýmsum sviðum sem ráðherra Íslands. Það er þetta sem við erum að tala um. Og þess vegna

varð ég fyrir vissum vonbrigðum --- og ég endurtek enn þá einu sinni að það var mér visst ánægjuefni að einn af þessum mönnum sem ég hef talið vísindamenn í okkar þjóðfélagi hefur nú komið inn í stjórnmál og er ráðherra iðnaðarmála í dag --- þess vegna voru það mér viss vonbrigði að hann hefur mál sitt á eftir frummælanda með því að þakka honum fyrir fróðlega frásögn. Sem sagt, prófessor Sólnes, þakka þér kærlega fyrir fróðlegt erindi. Ég hélt að það yrði tekið á móti þessu svokallaða erindi á allt annan hátt. Hér er verið að gera tilraun til þess að flytja út íslenskt hugvit og þekkingu í formi þeirra framleiðsluvara sem íslenskt hugvit hefur sett í fast efni, hvort sem það eru veiðarfæri, línur, vigtir eða vogir eða hvað það er kallað sem þarf til þess að útbúa fiskiskip.
    Fiskur er það sem við höfum lifað á og fiskur er það sem við munum lifa á lengi enn þá og er undirstaðan undir að skapa alla þessa þekkingu. En við verðum að breyta þessu í verðmæti. Og þegar þessi verðmæti eru eftirsótt af öðrum þjóðum að þá skuli íslenskur hugur okkar stjórnmálamanna vera takmarkaður við herta þorskhausa, saltfisk og frystan fisk! Ef við getum komið sjávarafurðum í það útflutningsform sem við höfum þekkt í gegnum aldirnar, þá eru okkar takmörk fullkomin. En þegar þekkingin til viðbótar við þetta á að verða söluvara og gjaldeyrisskapandi, þá erum við lokuð. Við getum ekki skilið þá sem skara fram úr í neinu.
    Ég vil ekki trúa því að það sé rétt að verðið sé of lágt. Verðið er of lágt, segir hæstv. ráðherra. Það er ekki sama hvernig samið er. Af hverju þá ekki að segja það og vita hvort við getum fengið hærra verð og samið einhvern veginn öðruvísi? En það liggur fyrir frá frummælanda að það voru möguleikar á 100 millj. kr. hagnaði út úr þessum samningi fyrir utan þá gríðarlegu vinnu sem það skapar á öllum sviðum við að búa út þessi skip og smíða en ekki ýta því til hliðar og segja: Við getum ekkert. Niðurstaðan, útgönguleiðin, sem við erum að velja hér og nú í þessu máli, er sú sem við höfum alltaf valið ef það koma einhver flókin dæmi upp, flókin samskipti við aðrar þjóðir. Það er að gera ekki neitt vegna þess að við höfum ekki heilabú til að hugsa út fyrir
hertan fisk, saltan fisk og frosinn fisk. Það er alveg furðulegt.
    Ég vil taka undir það með hæstv. fjmrh. að er eitt af því sem þarf að gera og gera sem allra fyrst, og þá beini ég náttúrlega máli mínu sérstaklega til hæstv. bankamálaráðherra, það er að bankakerfið þarf að verða samkeppnishæft. Ég reyndi sem formaður bankaráðs Útvegsbankans á sínum tíma að koma á samskiptum við franska banka um að stofna hér viðskiptadeild í bönkunum. En viðskiptadeildir eins og þær eru reknar í stórum erlendum bönkum eru ekki til hérlendis, þar sem bankarnir taka að sér fyrir sína viðskiptavini að finna kaupendur annars staðar og þurfa þá kannski að taka einhverjar aðrar framleiðsluvörur í staðinn. Það er ekki til. Sá partur af viðskiptum er ekki í okkar orðabók eða þekkingu yfir viðskipti. Auðvitað verður framleiðslan ekki

samkeppnishæf fyrr en umfjöllunin og meðhöndlunin í framleiðslukerfinu frá hráefni til neytanda er sambærileg hér og annars staðar. En það er þannig að útflutningur á öllu --- það er alveg sama hvort það er hugvit sem við erum að tala um hér, íslenskt hugvit í beinu eða óbeinu formi --- er margheftur. Það eru lög og reglur hér sem alls ekki eru til hjá öðrum þjóðum. Það er ekkert frjálsræði í útflutningi. Það er frjálsræði, má segja, í innflutningi en alls ekki í útflutningi, það er mjög langt frá því, hvorki á framleiðsluvörum okkar eða hugviti. Þá reynslu hef ég af samskiptum mínum við Kenýa á vegum íslenska ríkisins sem iðnrh. og ég ætla ekki að fara að rekja þá sögu vegna þess að hún er faktískt hliðstæð því sem hér er nú að ske. Málið er bara afgreitt út af borðinu vegna þess að það er auðveldasta aðferðin og minnsta ábyrgðin að segja nei við öllu sem menn ekki skilja í staðinn fyrir að kynna sér það. Skilningur íslenskra ráðamanna og Íslendinga yfirleitt á samskiptum við útlendinga eða samvinnu við útlendinga eða viðskiptum við útlendinga er svo takmarkaður að við stórtöpum á því frá ári til árs.
    Ég ætla ekki að hafa þessi orð miklu fleiri. Ég fékk orðið eftir að tíminn var liðinn, en ég sé enga ástæðu til þess að segja minna en ég tel mig nauðsynlega þurfa að segja þó að tíminn líði. En ég ætla að vara við þessum afgreiðslum á íslenskum möguleikum erlendis. Ég ætla að vara við þeim. Og ég trúi því ekki --- ég trúi því ekki, ég vil ekki trúa því --- meðan við höfum mann sem ég hef álitið einna best upplýstan í þeim störfum sem hann hefur unnið kominn inn í pólitík, að hann sé eins lokaður fyrir samskiptum við útlendinga eða hræddur við þau og hinir sem eru kannski miður vel upplýstir. Ég trúi því ekki. Við verðum sem allra fyrst að taka skrefið fram í framtíðina í samskiptum við annað fólk og önnur lönd. Við getum ekki setið kyrrir í fyrirstríðsárunum því hugsunarhátturinn hefur lítið breyst hvað þetta snertir.
    Virðulegi forseti. Ég held að það sé alveg ljóst að þessi mál koma aftur á dagskrá og jafnvel aftur og aftur þannig að ég sé ekki ástæðu til þess að taka meiri tíma hér og nú. En ég þakka frummælanda fyrir að hafa komið með þetta mál inn í Alþingi og ég vona að hans málflutningur, sem var góður, rökfastur og gaf ljósa mynd af þeim möguleikum sem eru fyrir hendi og þeim tækifærum sem eru að renna okkur úr greipum, nái fréttasíðum blaðanna vegna þess að allt þetta á erindi til þjóðarinnar. Það gæti hugsanlega vakið upp einhverja hugdjarfa menn sem fara út í það að gera Ísland að samstarfshæfara landi og þjóð en það er í dag.