Hvalveiðistefna Íslendinga
Föstudaginn 25. nóvember 1988

     Albert Guðmundsson:
    Virðulegur forseti. Ég hjó eftir því þegar 5. þm. Norðurl. v., hv. þm. Jón Sæmundur Sigurjónsson, talaði að hann gaf hluta af skýrslu sinni til Alþingis sem ferðamaður á vegum ríkisstjórnarinnar til Þýskalands. Ég kom inn í salinn um það leyti sem hann var að gera lítið úr því að 19 þúsund manns í Þýskalandi hefðu skrifað undir mótmæli gegn hvalveiðum okkar og talaði þannig, þann tíma sem ég hlustaði á, að 19 þúsund manns skiptu bara engu máli, þetta væri svo lítill hluti af öllum þeim milljónum sem búa í Þýskalandi. Það minnti mig á það að ég var einu sinni að ræða stjórnmál í Suður-Frakklandi við ágætan kunningja minn sem er mikill sósíalisti og Mitterand-maður. Hann taldi að það væri eitthvað um 10 þúsund manns sem ynnu fyrir Alþýðuflokkinn þar, Sósíalistaflokkinn, í þeim landshluta. En þegar kosninganiðurstöðurnar komu skiptu atkvæðin tugum milljóna. Ég held að það hafi verið hátt á annan tug milljóna atkvæða sem flokkurinn hafði fengið samtals í þessum landshlutum þar sem þessi 10 þúsund manns unnu. Við skulum ekkert gera lítið úr því að 19 þúsund manns hafi skrifað undir mótmælaskjöl. Þessi 19 þúsund manns fara heim til vina og ættingja og við skulum segja að það séu að meðaltali þrír til fjórir í hverri fjölskyldu og þar eru málin rædd og svo heldur þetta áfram eins og snjóbolti.
    Við skulum átta okkur á því hvaða boðskap við færum hv. Alþingi þegar við komum til baka frá því að vera opinberir sendimenn. Því var flaggað í blöðum hér og fjölmiðlum öllum að fyrirtæki sem áður höfðu lýst því yfir að þau mundu hætta að selja íslenskar vörur hafi nú breytt um og ætluðu að halda áfram að kaupa íslenskar vörur. En þegar maður las fréttina var hún um það að þeir ætluðu að klára þann samning sem þeir höfðu þegar undirskrifað. Ekkert var sagt um að þeir ætluðu að halda áfram kaupum eftir að samningurinn rynni út, ekki nokkurn skapaðan hlut og það liggur ekkert fyrir um það.
    Svona er hægt að fara illa með upplýsingar. Ég trúi því ekki að menn hafi verið sendir til útlanda til þess eins að koma til baka með ákveðnar fréttir sem voru kannski búnar til áður en þeir fóru. Svona fréttaflutningur gengur ekki. Við skulum bara átta okkur á því að málstaður okkar hefur ekkert breyst frá því að utanrmn. mælti með því að Alþingi mótmælti ekki hvalveiðibanni, það hefur ekkert breyst síðan. Alþingi stóð þá að því að mótmæla ekki hvalveiðibanni. Og við vorum þá með þau rök sem gilda enn þann dag í dag. Við vorum ekki að gefast upp, eins og hv. 3. þm. Vesturl. sagði hér áðan, við erum ekki að gefast upp fyrir einum eða neinum. Við erum bara að meta meiri hagsmuni fyrir minni og það þýðir ekkert að standa eins og álfur út úr hól og segja: Við skulum ekki brotna þó að við bognum. Við réttum okkur við aftur þó við þurfum að beygja okkur. Við erum heldur ekki af þeirri stærðargráðu í síminnkandi veröld að við getum gengið um eins og einhverjir yfirmenn, húsbændur í veröldinni. Við

verðum að taka tillit til annarra og starfa með en ekki á móti.
    Ég vil benda hv. 3. þm. Vesturl. á það að ég á fjölskyldu í Bandaríkjunum sem ég heimsótti í október í fyrra og ég varð alveg furðu lostinn hvað þrjú barnabörnin, öll undir 10 ára aldri, vissu mikið um hvalveiðar Íslendinga og hvalveiðimálið. Og þegar ég fór að leita mér upplýsinga um þetta kom það í ljós að hjón sem buðu mér heim, vinafólk dóttur minnar sem býr þarna og eru útlagar frá Íran og bæði verkfræðingar sem vinna við olíulindir í olíufyrirtæki í Oklahoma, vissu alveg ótrúlega mikið um þetta mál. Og af hverju? Vegna þess að sjónvarp um gervöll Bandaríkin hafði sýnt fræðslumyndir og samtalsþætti um málið og það var eins konar kennsluatriði í skólunum. Og að segja svo að Fíladelfía hafi verið skilin út undan skil ég ekki. En þetta var furðuleg niðurstaða í mínum huga, því mér fannst málið ekki vera það stórt fyrir veröldina í heild að það gæti fengið þetta mikla athygli í svo stóru ríki sem Bandaríkin eru. En þetta var nú samt tilfellið. Og að kenna svo íslenskum fjölmiðlum og blaðamönnum um aukinn styrk grænfriðunga held ég að sé of billegt til þess að taka það alvarlega á hv. Alþingi, mér liggur við að segja hæstv. Alþingi því þetta er nú æðsta stofnun þjóðarinnar. Ég held að svona rök eigi ekki heima í umræðum um þetta mál.
    Hv. flm. tillögunnar, 3. þm. Norðurl. e., sagði réttilega að áróður grænfriðunga væri að sjálfsögðu hlutfallslega miklu meiri í Japan en hann er hér. Og mér fannst hann gefa í skyn að sá áróður næði ekki til Sovétríkjanna. Hann horfði þannig á hv. þm. Guðmund G. Þórarinsson þegar hann sagði þetta að ég hélt að hann væri að meina að hann næði ekki til Sovétríkjanna vegna þess að Framsfl. væri svo sterkur í Sovétríkjunum. ( GHG: Í samvinnuversluninni.) Í samvinnuversluninni, það er nú líka það sem ég á við. Þú skildir það rétt, kannski sá eini í salnum sem það gerði. Mér finnst það vera rétt hjá hv. þm. Guðmundi G. Þórarinssyni að það hafi komið mjög skýrt fram hjá hæstv. fjmrh. Íslands að samvinnuverslunin á eftir að lifa tíu mánuði, sé ekki vaxandi og aukist ekki styrkur frá degi til dags.
    Ég tala um þessar 19 þúsund undirskriftir og ég segi frá mínum fjölskyldutengslum í Bandaríkjunum og samtölum við mína fjölskyldu þar um
þessi hvalamál vegna þess að ég vonast til þess að það beri einhvern árangur, það beri þann árangur að við misreiknum ekki eða gefum rangar upplýsingar um áróður og áróðursgildi þeirrar vinnu sem grænfriðungar inna af hendi um víða veröld og kosta til auðæfum. Og það hefur komið fram hjá ráðamönnum okkar að við höfum ekki fjármagn til þess að vinna á sama hátt gegn þeim, við verðum að beita einhverjum öðrum ódýrari brögðum.
    En ég er alveg sama sinnis og hv. 3. þm. Vesturl. Mér er bölvanlega við að taka við fyrirskipunum annars staðar frá, frá útlendingum sem ætla að sveigja okkar vilja inn á einhverjar brautir sem þeim hentar. En ég er líka sammála flm. þessarar tillögu um að við

getum ekki leyft okkur að fórna stærstu hagsmunum þjóðarinnar fyrir minni hagsmuni og það skiptir engu máli hver minn persónulegur vilji er í þessu máli. Við komum ekki alltaf því fram sem við viljum. Það er stundum betra að taka sönsum áður en það er of seint.