Virðisaukaskattur
Þriðjudaginn 29. nóvember 1988

     Albert Guðmundsson:
    Virðulegur forseti. Ég hef hlustað á bæði hv. 1. þm. Suðurl. og hv. 17. þm. Reykv. tala um allt annað frv. en það sem er á dagskrá. Hér er frv. til l. um breytingu á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, þar sem í 1. gr. kemur fram tilgangurinn, þ.e. frestun gildistöku á lögum sem þegar hafa verið samþykkt eins og kemur fram í fyrirsögninni, þ.e. lög nr. 50/1988 og samþykkt undir forustu Sjálfstfl. Virðisaukaskattslögin sem slík eru mjög í anda Sjálfstfl. þannig að ég vona að allt þetta tal sem lengir náttúrlega bæði skrifað mál og talað mál um virðisaukaskattinn þrátt fyrir fjarveru hæstv. landbrh. verði ekki til þess að virðisaukaskattsfrv. verði breytt yfir í það sem Sjálfstfl. á sínum tíma og ég þar með talinn vildum ekki og það í anda Alþb. Mér finnst eins og það sé verið að seiða fram brtt. frá Alþb.
    Ég lít svo á að virðisaukaskattslögin séu ekki til umræðu. Lögin eru samþykkt og þó að Alþb. hafi verið á móti þeim á sínum tíma er ráðherra fjármála frá Alþb. skylt að framkvæma þau samkvæmt vilja Alþingis á sínum tíma þangað til annað verður ákveðið af Alþingi. Það kemur ekkert málinu við hvað hann vill eða vill ekki eða Alþb. sem slíkt. Ég heyrði ekki, það getur verið að það hafi farið fram hjá mér, að fram kæmi í ræðu hæstv. fjmrh. að það stæði til að endurskoða lögin með það í huga að breyta þeim frá því sem er. Það getur verið að það hafi farið fram hjá mér. En ég vil taka undir það með hv. 1. þm. Suðurl. að verði breyting hugsuð á virðisaukaskattslögunum verði það gert í samráði við þingnefnd allra flokka. Það er ekki mikil eða þung krafa til ríkisstjórnarinnar frá okkur sem ekki erum í ríkisstjórn.
    En hæstv. fjmrh. talaði um að það væru bæði málefnalegar og pólitískar ástæður fyrir frestun á framkvæmd virðisaukaskattsins. Þingmenn Borgfl. tóku nokkuð oft til máls þegar virðisaukaskatturinn var til umræðu og bentu á að tímamörkin væru afskaplega naum. Það hefur komið í ljós núna að hæstv. fjmrh. undirstrikar þennan málflutning Borgfl. frá þeim tíma.
    Ég segi að það er eðlilegt að ráðherra, sem er ábyrgur fyrir framkvæmd þeirra miklu breytinga sem upptaka virðisaukaskattsins hefur í för með sér, vilji tryggja sem mestan og bestan undirbúning að framkvæmd laganna. Ég tel það ábyrg vinnubrögð og þar af leiðandi tek ég undir með hv. 1. þm. Suðurl. að ég styð þetta frv. og sé enga ástæðu til að fjölyrða um það. En ég legg mikla áherslu á þann þátt sem kom fram í ræðu hæstv. fjmrh., en það er fræðsluþátturinn sem ég tek undir að er mikilvægur í öllum undirbúningi og nauðsynlegur fyrir alla þá sem bæði framkvæma þessi lög og eins þá sem eiga að vinna samkvæmt þeim í þjóðfélaginu.
    Ég lagði fram virðisaukafrv. á sínum tíma sem fjmrh. Það var lagt fram í Ed. og þá var enginn flokkanna, ekki einu sinni minn eiginn, sem studdi frv. Það var ekki samkomulag um frv. þá í neinum flokkum þannig að það hefur orðið stefnubreyting í öllum flokkum. Formaður fjh.- og viðskn. Ed. á þeim

tíma, Eyjólfur Konráð Jónsson, ráðlagði mér að leggja ekki áherslu á að fá frv. úr nefnd vegna þess að það væri ekki meirihlutastuðningur í Ed. fyrir frv. En lögin eru ekki til umræðu, þau eru samþykkt og ráðherra ber að framkvæma vilja Alþingis í þessum málum. Ég leyfi mér að lýsa yfir stuðningi mínum við þá frestun sem hann leggur til á þskj. 141 og tel það góð og ábyrg vinnubrögð.