Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Þriðjudaginn 29. nóvember 1988

     Albert Guðmundsson:
    Virðulegur forseti. Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði hækkar nú um yfir 100%. Einhvern tíma var því haldið fram að samvinnuverslunin í landinu réði yfir 25% af heildarviðskiptum landsmanna á því sviði. Ef við segjum að það sé rétt má reikna með að hlutfallslega standi samvinnuhreyfingin að 1/4 hluta greiðslna á þessum nýja skatti. Í fljótu bragði gæti maður hugsað sem svo að 105 millj. plús það sem á eftir að innheimta frá gamalli tíð, svona 110--115 millj., kæmu í hlut samvinnuverslunarinnar að greiða af þessum rúmum 400 millj. Miðað við það sem ég sagði fyrr í dag í umræðu um annað mál og hafði eftir hæstv. fjmrh., þá á samvinnuhreyfingin að óbreyttu ástandi eftir að lifa 10--12 mánuði. Hún verður komin á hausinn eftir 10--12 mánuði. Ég reikna með að ef við bætum 50--60 millj. við þann halla sem hún á við að stríða gæti tímabilið styst niður í 9 eða 8 mánuði.
    Nei, aukin skattheimta, hæstv. forsrh., breytir ekki nokkrum sköpuðum hlut fyrir ríkið sem slíkt en það breytir alveg gríðarlega miklu fyrir einstaklinga og atvinnureksturinn í landinu fyrst og fremst. Það kemur síðast niður á ríkinu. Aftur á móti kemur það niður á ríkinu seinna meir og þetta seinna meir er komið. --- Það er leiðinlegt að þurfa að endurtaka vegna fjarveru ráðherra það sem maður hefur sagt í ræðustól fyrr á sama degi. --- Fólkið og fyrirtækin fá ekki að njóta og nota afrakstur vinnu sinnar á eðlilegan hátt vegna þess að ríkinu liggur svo á að taka það sem það getur af fólki um leið og það aflar þess og því eru tekjur ríkissjóðs óeðlilegar og fólk og fyrirtæki fara á hausinn. Þetta veit hæstv. forsrh.
    Á þeim tíma sem fjárlagagerðin fer í gang hjá ríkisstjórninni sjálfri er ákveðin verðbólguforsenda innbyggð í niðurstöður. Þetta veit hæstv. fjmrh. og að sjálfsögðu hæstv. efnahagsmálaráðherra. Á þeim tíma sem fjárlagagerðin fer í gang í ár er verðbólgan talin á uppleið vegna þess að fyrrv. ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar hafi staðið sig svo illa. Þetta var málflutningurinn. Og til þess að mæta þessari vondu afkomu er fjárlagagerðin með um 30% innbyggðri aukaálagningu miðað við það sem hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. halda fram í dag, þ.e. að verðbólgan sé komin niður í 0%. Það þýðir að í krónutölu eru fjárlögin u.þ.b. 30% hærri í útgjaldalið heldur en þau þurfa eða eiga að vera samkvæmt eðlilegum útreikningum.
    Þegar ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar tók við 1983 var talið að verðbólguþáttur fjárlaga hefði verið rangur að því marki að verðbólgan nálgaðist um 100% í maí 1983, en forsendur fjárlaga voru sagðar hafa verið 42% verðbólga. Ríkissjóður var tómur og allir aðilar sem áttu til hans að sækja voru í það miklum vanda, við munum það sem vorum í ríkisstjórn þá, að skólar gátu ekki greitt akstur á skólabörnum, þeir gátu ekki greitt hitakostnað né rafmagnskostnað og svona má lengi telja. Nú er þessu öfugt farið. Við upphaf fjárlagagerðar er reiknað með 30% verðbólgu en hún er komin niður í 0% samkvæmt upplýsingum

ríkisstjórnarinnar. Allt það sem hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. hafa sagt um þennan mikla vanda hlýtur því að vera rangt. Það getur ekki verið að þeir segi fólkinu í landinu að hér sé engin verðbólga vitandi það að þeir hafa innbyggt hana í eyðsluþátt ríkissjóðs og á þeim forsendum verða þeir að leggja nýja og hærri skatta. Þetta dæmi gengur ekki upp. Með blekkingum eða jafnvel bara hreinum lygum verður ekki náð hallalausum ríkissjóði því að slík vinnubrögð koma alltaf fram í dagsljósið. Ég vil trúa því að ríkisstjórnin hafi sagt satt þegar hún talaði um 30% verðbólgu. Ég vil trúa því að hún segi satt þegar hún segir að það sé engin verðbólga. En við vitum hvaða fjárlagafrv. liggur frammi með 76--80 milljarða niðurstöðu í eyðsluhlið fjárlaga. Vegna þessarar hækkunar á gjaldahlið um 16--20 milljarða verður að leggja á nýja skatta. En dæmið gengur samt ekki upp. Þarna segir einhver ósatt.
    Það er talað um að ástandið í Reykjavík sé þannig að þar séu um 200 000 m2 í verslunarhúsnæði ónotaðir. Það getur vel verið að það sé rétt, ég ætla ekki að mótmæla því. En hverjir hafa byggt og breytt í Reykjavík undanfarin ár? Stærsta dæmið er Mjólkursamsalan, ekki er hún á vegum Reykvíkinga. Sláturfélag Suðurlands, ekki er það á vegum Reykvíkinga. ( Gripið fram í: Hagkaup.) Osta- og smjörsalan, ekki er hún á vegum Reykvíkinga. Mikligarður og öll þau umsvif sem þar eru í vörugeymslum og hafnarmannvirkjum, ekki eru þau á vegum Reykvíkinga. Ekki er Kirkjusandsbyggingin, sem er stærsta skrifstofubygging í Reykjavík, á vegum Reykvíkinga heldur Sambandsins. Ríkisstjórnin sjálf hefur verið með skrifstofubyggingar og innréttingar hingað og þangað um borgina. Hafnarhúsið er að mestu leyti komið undir ríkisfyrirtæki. Ríkið hefur verið með umsvif inni á Grensásvegi og á Laugavegi, þ.e. Mjólkurstöðin gamla, og það nýjasta er hér í Austurstræti 14. Kirkjuhvoll og skrifstofubyggingarnar hérna í kring eru komnar undir ríkið. Þetta er ekki fyrir einstaklinga. Svo ég tali nú ekki um byggingar eins og Seðlabankann og Útvarpshúsið sem hvorug er fyrir Reykvíkinga eina. Verðbólguþátturinn er m.ö.o. eins mikið hjá opinberum aðilum og einkageiranum.
    Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri, virðulegi forseti. Það getur verið að
hægt sé að segja við þjóðina eins og sagt er við bankakerfið: Með illu skal það í gegn ef það fer ekki með góðu. Ykkar er mátturinn en dýrðin verður aldrei ykkar, það er alveg ljóst.