Yfirlýsingar fjármálaráðherra um samráð við
Þriðjudaginn 13. desember 1988

     Albert Guðmundsson:
    Virðulegi forseti. Ég hef áður sagt að hæstv. fjmrh. væri skemmtilegur tækifærissinni og er að mörgu leyti einn af mínum uppáhalds stjórnmálamönnum vegna þess að það er viss prakkari í honum sem er gaman að svo ég tek ekki of alvarlega þessi ummæli sem hv. 1. þm. Suðurl. fór með eftir fréttamiðlum og höfð eru eftir hæstv. ráðherra. Hann er eflaust að reyna að búa til huldufólk og gengur auðsjáanlega illa. En þó hafa þessi ummæli hæstv. fjmrh. orðið til þess að ég hef séð mig knúinn til þess að ítreka hvað eftir annað á þingflokksfundum Borgfl. hvort einhverjir þingmenn hafi orðið fyrir því að við þá hafi verið talað um stuðning við þau tekjuöflunarfrv. eða fjárlögin sem fram hafa komið. En þeir hafa allir sem einn fullvissað mig um að engar viðræður hafi farið fram um afgreiðslu fjárlaga eða um tekjuöflunarfrv. þannig að þrátt fyrir að oft hafi fjölmiðlar tekið þannig til orða að skilja mætti að viðræður um framgang þessara mála ættu sér stað við stjórnarandstöðuna, og ég nota nákvæmlega sömu orð og hv. 1. þm. Suðurl. notaði um Sjálfstfl. og sjálfstæðismenn, er þetta alrangt.
    Ég sé ekki ástæðu til að hafa lengra mál um þessi atriði, en vil þó segja að það var talað við mig um að flýta í gegnum nefnd, að tefja ekki í nefnd ákveðin tekjuöflunarfrumvörp eins og t.d. vörugjaldsfrv. En það var bara um það að tefja ekki málið í nefnd. Um afgreiðslu málsins, stuðning eða andstöðu í þingdeild var ekki rætt. Ég vil segja að þau vinnubrögð sem viðhöfð voru við stjórnarmyndunarviðræðurnar, þegar hv. þm. Borgfl. voru hundeltir af einstökum þingmönnum stjórnarliðsins til að fá þá í lið með sér, eru vinnubrögð sem ég ætla að vona að verði ekki tekin upp aftur. Þó svo ég óttist ekki liðhlaup okkar fólks eru þetta leiðinleg vinnubrögð og ný vinnubrögð á Alþingi sem ég held að flokkarnir ættu ekki að taka upp. Að öðru leyti verða þessi þingmál, hvort sem það eru fjárlögin eða tekjuöflunarfrv., rædd í þingnefndum á eðlilegan hátt.