Skipasmíðaiðnaðurinn
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Albert Guðmundsson:
    Virðulegur forseti. Það sem kemur mér upp í ræðustól eru orð hæstv. iðnrh.: Ríkisstjórnin getur ekki o.s.frv. Þetta er rangt. Ríkisstjórnin hefur leyfi til að leysa þetta mál að verulegu leyti. Þegar tilboð bárust í skipasmíða- eða viðgerðarverkefni frá Noregi þann tíma sem ég var iðnrh. var það undantekningarlaust með norskum opinberum styrkjum að því leytinu til að ríkisstjórn Noregs tók á sig allan fjármagnskostnað. Fjármagnskostnaðurinn var dreginn frá í tilboðunum þannig að íslensku tilboðin, sem voru með öllum fjármagnskostnaði og að sjálfsögðu öllum innlendum kostnaði sem þar fyrir utan hleðst á verkefni hér, voru þar af leiðandi ekki sambærileg. Ríkisstjórnin getur hins vegar farið þá leið sem ég stakk upp á á sínum tíma sem iðnrh. í ríkisstjórninni en hæstv. sjútvrh. neitaði algjörlega. Ríkisstjórnin getur hætt að veita lán úr almennum sjóðum skattgreiðenda á Íslandi til fjárfestingar eða til viðgerðarverkefna erlendis ef hægt er að leysa verkefnið hérlendis þótt einhver munur sé á tilboðunum. Það er hægt að draga frá skatta og það er hægt að draga frá skatta fyrirtækja og einstaklinga og öll opinber gjöld af íslensku tilboðunum og bera svo saman og á ég þar sérstaklega við Fiskveiðasjóð. --- Ég bið forseta velvirðingar. Þetta mál er það stórt að ég klára ekki það sem ég þarf að segja. Með því að draga frá bæði skatta og opinber gjöld og bera svo saman íslensk tilboð og erlend tilboð var á sínum tíma vit í að taka íslensku tilboðunum en ekki að láta verkefnin fara úr landi og þar með fjármagna fyrir íslenska skattpeninga vinnumarkaðinn erlendis.